„Það var frábært að vinna þetta og bara mjög sterkt. Þetta var erfiður leikur. Það var mikið af óútreiknanlegum hlutum í vindinum en bæði lið voru vissulega að reyna. Stelpurnar voru eitthvað stressaðar í fyrri hálfleiknum og FH-ingar yfirvegaðri.
Á endanum er þetta eitt mark sem skilur að og báðir markmenn þurftu að grípa inn í og stöngin bjargaði okkur einu sinni. Þetta var opnasti lokaði leikur sem ég hef tekið þátt í lengi“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA eftir 1:0 sigur norðanliðsins á FH í dag.
Þór/KA sleit sig þar með frá helsta keppinaut sínum um 3. sætið í Bestu deildinni. Liðið hefur 33 stig á meðan Víkingur hefur 29. FH kemur svo næst á eftir með 25 stig.
„Aðstæður buðu ekki upp á að þetta gæti farið 4:4 en þetta var dálítið endana á milli og það hefðu vel geta komið mun fleiri mörk. Við vorum að ströggla of mikið í fyrri hálfleik. Ég veit ekki almennilega hvers vegna. Við vildum halda í boltann og spila með jörðinni en fórum full snemma í að losa frá okkur með löngum sendingum og misstum þá boltann allt of oft. Það er því þeim mun sætara að hafa unnið.“
Hvað með þá ákvörðun um að spila síðustu þrjá heimaleikina hér á KA-vellinum?
„Við höfum verið að fjölga æfingum hér og byrjuðum á því strax í júlí. Það voru margir útileikir hjá okkur á gervigrasi og við vorum bara í undirbúningi fyrir þá leiki. Núna er aðallega verið að létta á álaginu á Þórsvellinum eftir vonda veðratíð upp á síðkastið. Ef að bæði Þór og Þór/KA hefðu tekið allar æfingar og alla leiki þar þá væri sá völlur varla til frásagnar.
Við léttum á þessu þannig að við fórum að æfa mikið hér og svo eftir þessar miklu rigningar síðustu vikurnar þá fórum við að velta því fyrir okkur hvort það væri hreinlega boðlegt fyrir okkur og andstæðingana að spila þar.
Nú er Þór að spila á vellinum kl. 16 í dag og þá væri alltaf spurning um hvenær við gætum spilað þennan leik. Við getum bara sagt að álag á einum velli var bara of mikið. Þetta var ekkert mál og allir tilbúnir að gera allt fyrir okkur hér enda samstarf í gangi.“
Það voru þá bara veðurguðirnir sem voru til vandræða.
„Þeir mega nú eiga það að vindurinn var á hlið til heiðurs skástrikinu. Hann blés þá ekki á annað markið og hélt jafnvægi í leiknum“ sagði þjálfarinn að lokum.