„Yrði pirraðri að tapa á móti eldri systrum mínum“

FH-ingar voru ekki sáttir við mark sem dæmt var af …
FH-ingar voru ekki sáttir við mark sem dæmt var af þeim í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Systurnar Arna og Bryndís Eiríksdætur mættust enn einu sinni á knattspyrnuvellinum í dag þegar FH sótti Þór/KA heim á KA-völlinn. Arna, sem er eldri, er fyrirliði FH en Bryndís er lánsmaður frá Val og spilar í sumar með Þór/KA. Það voru heimakonur sem unnu leikinn 1:0 og var Bryndís því að leggja systur sína í þriðja skipti í sumar. Arna og FH-ingar unnu þó síðasta leik liðanna 1:0 og getur þá ornað sér við það.

Arna kom í viðtal eftir leik og heillaði blaðamann með góðu orðfæri. Hún var fyrst spurð út í þá stöðu að hafa nú tapað þrisvar sinnum fyrir litlu systur sinni í sumar.

„Það er aldrei gaman að tapa fótboltaleik. Það er alveg á hreinu. Það fær ekkert meira á mig að hafa tapað leik á móti henni. Mér finnst gaman þegar við mætumst og hún er búin að vera frábær með Þór/KA í sumar. Ég held að ég yrði pirraðri að tapa á móti eldri systrum mínum heldur en þeirri yngri.“

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Leikurinn í dag var hnífjafn og hefði hvort lið getað unnið. Tvær stórar ákvarðanir dómarans höfðu sitt að segja. Í fyrri hálfleik var mark dæmt af FH, sem hefði átt að standa og tíu mínútum fyrir leikslok hefði vel mátt dæma víti á Þór/KA þegar Agnes Birta Stefánsdóttir keyrði inn í Söru Montoro þannig að hún féll í vítateignum. Arna var spurð um þessi atvik.

„Ég var ekki nálægt atvikunum í seinni hálfleik en stelpurnar tala um að við hefðum getað fengið tvö víti þar sem ein úr Þór/KA fékk boltann í höndina á lokakaflanum. Það þarf ég bara að sjá aftur. Ég var hins vegar alveg við atvikið þegar markið okkar var dæmt af og ég sé ekki hvað ætti að valda því að sú ákvörðun var tekin. Þar sá ég ekkert athugavert.“

Ég er búinn að horfa á þetta í endursýningum og er á því að þetta hafi verið gilt mark.

„Það er bara rosalega svekkjandi að heyra það svona eftir leik. Mark í fyrri hálfleik hefði gefið okkur mikið og skipt töluverðu fyrir gang leiksins. Ég ætla að leyfa mér að segja það að þetta hafi verið besti leikur okkar í sumar. Við erum með fjöldann allan af ungum stelpum sem voru með risastórar frammistöður í dag. Við höfum átt í erfiðleikum með að halda bolta g láta hann ganga en það gekk mjög vel í dag. Í rauninni þá slokknaði bara á okkur einu sinni og þær skora. Annars var þetta heilt yfir ótrúlega góð frammistaða hjá okkur.“

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það má segja að þið hafið búið til markið fyrir Þór/KA.

„Já, já“ sagði Arna, ekkert endilega sammála. „Þetta er eitthvað sem getur alltaf gerst. Við vorum búnar að vera mikið með boltann. Þær voru bara rólegar og biðu eftir sínum sénsum. Svo ná þær bara að refsa. Þegar Sandra María fær svona færi þá bara skorar hún. Hún er bara það góð í svona stöðum og það varð okkur að falli í dag.

Aldís í markinu hjá ykkur sýndi frábæra takta í nokkur skipti og hún er með eiginleika sem maður sér ekki oft í kvennadeildunum. Það er eins og hún sé með gorma undir skónum sínum og vörslurnar hennar gera boltann fallegri.

„Hún er geggjuð fyrir okkur og er með rosalegar skutlur. Mjög mikilvægur leikmaður.

Nú eru fjórir leikir eftir.  Hvernig horfið þú í þá?

„Ég horfi fyrst og fremst á þetta þannig að við tökum einn leik í einu. Ef við höldum áfram að sýna svona frammistöður þá held ég að við munum fá góð úrslit. Mér fannst við óheppnar í dag.“

Þið farið í alla leiki til að vinna. Á ekki að reyna að stríða toppliðunum tveimur?

„Ég horfi ekki á það þannig að við séum hugsanlega að fara að eyðileggja fyrir einhverjum öðrum. Við bara viljum vinna okkar leiki og teljum okkur geta gert það hvort sem það er á móti liðunum sem eru að berjast um Íslandsmeistaratitilinn eða hinum í þessum efri hluta. Við ætlum bara að reyna að vinna alla leiki sem eftir eru“ sagði mælskur fyrirliðinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka