Fljótastur að skora þrennu í þrettán ár

Benoný Breki Andrésson skoraði þrennu fyrir KR gegn ÍA í …
Benoný Breki Andrésson skoraði þrennu fyrir KR gegn ÍA í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Benoný Breki Andrésson, sóknarmaður KR, var fljótastur allra til að skora þrennu í efstu deild karla í fótbolta í þrettán ár þegar KR-ingar lögðu Skagamenn í Bestu deild karla á Meistaravöllum í dag, 4:2.

Benoný var kominn með þrennu eftir 35 mínútna leik, skoraði á 12., 28. og 35. mínútu leiksins og kom þá KR í 3:1 eftir að Skagamenn höfðu skorað fyrsta markið.

Eini leikmaðurinn sem hefur verið kominn með þrennu í deildinni fyrr í leik á þessari öld er Guðjón Baldvinsson, sem skoraði einmitt líka þrennu fyrir KR árið 2011, þá gegn Fylki, en hann gerði öll þrjú mörk Vesturbæinga í leik í Árbænum, 3:0, og skoraði þau á 14., 24. og 28. mínútu leiksins.

Patrick Pedersen úr Val hefur einnig náð að skora þrennu í fyrri hálfleik en hann var kominn með þrjú mörk gegn HK árið 2020 eftir 38 mínútna leik.

Aðeins þessir þrír leikmenn hafa skorað þrennu í fyrri hálfleik á þessari öld. Síðastur til þess á 20. öldinni var Eyjamaðurinn Tómas Ingi Tómasson sem skoraði þrennu í fyrri hálfleik fyrir Þrótt gegn Keflavík árið 1998.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert