„Hann spilaði eins og kóngur“

Tarik Ibrahimagic með boltann í leiknum í kvöld. Jónatan Ingi …
Tarik Ibrahimagic með boltann í leiknum í kvöld. Jónatan Ingi Jónsson er til varnar. mbl.is/Ólafur Árdal

Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari Víkings, stýrði liðinu í fjarveru Arnar Gunnlaugssonar í mögnuðum endurkomusigri á Val, 3:2, í Víkinni í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Við töluðum um að byrja leikinn sterkt og við svo sem gerðum það. Ég var mjög ánægður með frammistöðu liðsins, fengum ósanngjarnt rautt spjald að mínu viti. Mér fannst hann ekki fara með sólann á undan sér en við dveljum ekkert við það núna. 

Ég var ánægður með hvernig menn brugðust við þessu öllu saman. Við fengum mark á okkur strax eftir rauða spjaldið og það kemur annað mark strax eftir það. Þetta voru tilviljanakennd mörk sem Valur skora því við vorum í góðum stöðum með menn í teignum. Við bognum ekkert við það, við höldum bara áfram að spila og vorum sterkari í fyrri hálfleik, manni færri, ef eitthvað var. 

Það var pínu skrítið að standa fyrir framan hópinn í hálfleik, tveimur mörkum undir og manni færri að segja að við þyrftum að hafa trú á því að við gætum komið til baka. Spilamennskan var góð í fyrri hálfleik og við héldum bara áfram í seinni hálfleik. Við vorum klókir, nýttum stöðurnar sem við fengum og auðvitað hjálpaði það að það þeir misstu mann af velli en þá gengum við algjörlega á lagið.“

Eins og Sölvi kom inná var eiginlega bara eitt lið á vellinum eftir að Hólmar Örn Eyjólfsson fékk að líta rauða spjaldið í liði Vals í síðari hálfleik.

„Við tókum bara algjörlega yfir leikinn og fannst við vera með miklu meiri kraft en þeir til að klára þennan leik. Þetta sýnir bara hversu sterkt hugarfarið hjá þessum strákum er, þeir leggja allt í sölurnar og eru tilbúnir að fórna sér fyrir hvorn annan til að vinna einn fótboltaleik, það er geggjað að sjá.“

Það vantaði talsvert í Víkingsliðið í kvöld og fengu menn sem hafa kannski minna spilað tækifæri. Einn þeirra var Tarik Ibrahimagic sem var líklega maður leiksins, þrátt fyrir að hafa orðið fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Hann lék sem miðvörður, bakvörður og miðjumaður í leiknum, skoraði jöfnunarmark Víkings og var virkilega öflugur á boltanum.

„Ég tek algjörlega undir það, hann var virkilega góður ásamt öllum leikmönnum liðsins. Það lögðu allir sitt í þetta verkefni og það er erfitt að taka einhvern út. Mig langar samt að benda á það að Tarik skoraði sjálfsmark, en var ekkert að láta það á sig fá. Það sýnir hvernig karakter þetta er. Það er bara næsta augnablik, haldið áfram og ekkert verið að dvelja við það sem gerðist, það gera alvöru sigurvegarar. Hann heldur betur steig upp eftir þetta sjálfsmark og spilaði eins og kóngur, við erum virkilega sáttir með hans innkomu, ekki bara sem leikmann heldur líka sem persónu.“

Víkingur er þremur stigum á eftir toppliði Breiðabliks með leik til góða og stefnir því allt í rosalega toppbaráttu í úrslitakeppninni.

„Ég ætla rétt að vona það að þetta verði smá spennandi í ár. Breiðablik eru búnir að vera flottir, búnir að klára þessa leiki og eru sterkir í haustinu. Við þurfum að hugsa um okkur, mæta af krafti og berjast fyrir hvorn annan í gegnum þetta mót. Megi svo bara besta liðið enda uppi sem sigurvegari.“

Talsverður hiti var í leiknum og fóru fjölmörg spjöld á loft. Sigurður Hjörtur Þrastarson dæmdi leikinn og leysti þetta verulega erfiða verkefni vel.

„Sennilega var þetta mjög erfiður leikur já. Hann setti svolítið skrítna línu fannst mér og var full fljótur að byrja að veifa spjöldum. Þá setur hann sig kannski í smá erfiða stöðu fyrir restina af leiknum því mér finnst að í svona stórum leikjum megi leyfa þessu aðeins að fljóta og leyfa mönnum að takast á.“

Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari Víkings.
Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert