Alexander Rafn Pálmason varð í kvöld yngsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar karla í knattspyrnu hér á landi þegar hann kom inn á sem varamaður hjá KR gegn ÍA í 21. umferð Bestu deildarinnar á Meistaravöllum.
Alexander er 14 ára og 147 daga gamall, fæddur 7. apríl 2010, og hann bætir metið um 171 dag.
Fyrra metið átti FH-ingurinn Gils Gilsson sem lék 14 ára og 318 daga gamall með Hafnarfjarðarliðinu fyrir tveimur árum, undir lok tímabilsins 2022.
Alexander er sonur Pálma Rafns Pálmasonar, framkvæmdastjóra KR, sem stýrði KR-liðinu um skeið í sumar, eftir að Gregg Ryder var sagt upp störfum og þar til Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við liðinu. Pálmi lék sjálfur lengi með KR og er með leikjahærri knattspyrnumönnum Íslands.
Þá lék móðir hans, Telma Ýr Unnsteinsdóttir frá Fáskrúðsfirði, 31 leik í efstu deild með Þór/KA/KS og Fylki.