Ljónheppnir að við skoruðum ekki sex mörk í dag

Hallgrímur Jónasson á hliðarlínunni.
Hallgrímur Jónasson á hliðarlínunni. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA tapaði sínum fyrsta leik í tíu vikur í Bestu deild karla í dag og er úr leik í kapphlaupinu um sjötta sætið í deildinni áður en henni verður skipt upp. KA spilar því í neðri hlutanum annað árið í röð.

KA tapaði síðast gegn Breiðabliki en það var einmitt Blikaliðið sem lagði KA í dag 3:2. Hallgrímur Jónasson var ansi svekktur eftir leik eins og við mátti búast því KA gerði nóg til að vinna leikinn.

„Ég er virkilega svekktur og hefði samt verið svekktur þó við hefðum fengið eitt stig. Við áttum bara að vinna þennan leik.

Því miður þá klúðrum við held ég þrisvar einn á móti markmanni þar sem við skjótum beint á markmanninn og svo eigum við að fá mesta víti sem ég hef séð í langan tíma en einhvern veginn sjá dómararnir það ekki þegar Viðar (Örn Kjartansson) stígur fram fyrir varnarmann sem ætlar að negla boltanum 70 metra í burtu og neglir aftan í Viðar.

Því miður missti dómarinn af því og það er virkilega svekkjandi því eins og ég sagði hefðum við átt að skora fjögur mörk meira í þessum leik. Það fer samt ekki endilega með leikinn. Við fáum á okkur þrjú mörk og tvö af þeim er eitthvað sem ég er ekki sáttur með en málið er að við fórum að pressa á þá, fórum ofar á völlinn.

Þá fóru að koma opnanir en ef þú lítur bara á skot á mark og færi þá eigum við bara að vinna leikinn en Breiðablik er gott lið, þeir skora þrjú mörk og voru ljónheppnir að við skoruðum ekki sex mörk í dag.”

Viðar Örn Kjartansson á KA-vellinum í dag.
Viðar Örn Kjartansson á KA-vellinum í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Málið er að við eigum frábæra frammistöðu í dag. Þetta er lið sem er efst í deildinni og þeir eru ljónheppnir að fara héðan með sigur. Eins og ég segi áttum við að vinna þennan leik þannig ég er virkilega ánægður með strákana, við erum á frábærum stað. Núna er bara smá pása og svo förum við á Skagann og gerum vel og svo vinnum við bikarúrslitaleikinn, þá eru allir himinlifandi”, sagði Hallgrímur jafnframt.“

„Atvikið með Viðar er stórt í þessum leik en það sem situr í mér er færanýtingin, þessi dauðafæri og svo mörkin sem við fáum á okkur, sem eru of mörg. Og fyrst Breiðablik skoraði þrjú mörk þá eru það dauðafærin sem við skorum ekki úr sem fara með leikinn.“ Svo mörg voru þau orð og KA þarf að safna fleiri stigum og passa sig að sogast ekki niður í fallbaráttuna á lokakafla mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka