„Mjög erfitt að tala um einhverja toppbaráttu“

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, var eðlilega ekki sáttur eftir tap gegn Víkingi, 3:2, í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Valur var tveimur mörkum yfir og manni fleiri í leiknum en missti hann að lokum niður í tap.

„Ég er mjög svekktur og reiður, get eiginlega ekki útskýrt tilfinningarnar mínar núna. Við vorum 2:0 yfir, manni fleiri og fórum bara í panikk sem byrjaði í lok fyrri hálfleiks þegar við vorum með allt í okkar höndum. 

Í byrjun seinni hálfleiks náðum við aðeins að laga hlutina og náðum stjórn á leiknum aftur. Við komum okkur í góða stöðu til að bæta við þriðja markinu en við vorum búnir að tala um það að næsta mark yrði okkar megin. 

Eftir rauða spjaldið förum við í algjört panikk og á sama tíma fær Víkingur auka kraft sem við náum ekki að eiga við. Við vissum alveg hvernig þeir myndu spila, ég sagði fyrir leik að við þyrftum að passa hlaupin þeirra inn í teiginn í fyrirgjöfum, við æfðum þetta alla vikuna. 

Áhyggjuefnið fyrir mig er að við, með frábært lið og rosalega mikla karaktera í liðinu og á bekknum, förum í svona panikk. Jafnvel þó við fáum rautt spjald erum við samt 10 á móti 10 og 2:0 yfir. Fyrsta markið þeirra kemur beint eftir rauða spjaldið og hleypir að sjálfsögðu sjálfstrausti í þeirra lið en við eigum bara að vera miklu betri í að eiga við svona hluti. Við verðum bara að líta í eigin barm og reyna að laga þetta, þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist í sumar.“

Valsmenn litu vel út á köflum í fyrri hálfleik. Er hægt að taka eitthvað jákvætt út úr svona leik?

„Já, já en þetta er bara ekki nóg. Það er ekki nóg að spila leiki bara í 50-60 mínútur. Þetta gerðist líka í Kaplakrika og við erum lið sem vill vera í toppbaráttu. Við viljum vinna leiki hér á Víkingsvelli, sérstaklega þegar við erum að leggja hart að okkur til að gera það og með stjórn á leiknum eins og í kvöld.“

Valur er nú 11 stigum á eftir toppliði Breiðabliks og er því gott sem hægt að afskrifa liðið í baráttunni um titilinn.

„Það er mjög erfitt að tala um einhverja toppbaráttu þegar maður missir svona mikilvægan leik úr höndum sér. Við þurfum að líta vel inná við, ég fyrst og svo strákarnir. Við verðum að byrja á æfingasvæðinu, vinna vel úr þessum hlutum því þetta er ekki tengt fótbolta. Við sýnum það leik eftir leik að við getum spilað frábærlega en maður verður líka að sýna heilsteypta frammistöðu í 90 mínútur og kasta leikjum ekki svona frá sér.“

Það var hiti í leiknum og fóru mörg spjöld á loft. Sigurður Hjörtur Þrastarson og hans teymi leystu þetta erfiða verkefni vel en þetta var mjög erfiður leikur að dæma.

„Í leikjum á milli Víkings og Vals á þetta að vera svona. Ef ég væri að fara að kvarta yfir dómgæslu í leik þar sem við vorum tveimur mörkum yfir en töpum 3:2 væri ég eins og lítill krakki. Við eigum bara að gera betur í svona stöðum og það er það sem situr í mér.“

Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals.
Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert