Rúnar: Botnbarátta framundan

Kennie Chopart á boltanum í kvöld.
Kennie Chopart á boltanum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, var að vonum svekktur þegar hann mætti í viðtal til mbl.is eftir 1:0 tap liðsins gegn HK í Bestu deild karla í knattspyrnu í Kórnum í dag.

„Svekkjandi eins og í síðustu umferð, að fá á sig mark á 85. mínútu. Mér fannst við ekki átt að tapa í dag. Erum með betri frammistöðu, sköpum mikið af hálfsénsum, sköpum kannski ekki mikið af dauðafærum og erum mun meira með boltann.

Erum að búa til opnanir og auðvitað brennum við af vítaspyrnu sem hefði getað sett okkur í fína stöðu en við erum ekki að skapa þessi dauðafæri þrátt fyrir að hafa boltann meira,“ sagði Rúnar í viðtali við mbl.is eftir leik.

Fram var sterkari aðilinn í leiknum og stefndi allt í markalaust jafntefli þar til á 85. mínútu þegar Þorsteinn Aron Antonsson skoraði sigurmark HK

„Svo kemur bara einhver fyrirgjöf sem siglir í gegnum alla vörnina og hún fer í markið og voða lítið hægt að gera við því,“ sagði Rúnar.

Fram hefur tapað síðustu fjórum leikjum sínum og aðeins skorað tvö mörk í þeim.

„Út á vellinum finnst mér við vera að spila vel. Mér finnst við hafa tekið stór skref í sumar, bætt okkur og spilað fínan fótbolta þegar við erum með boltann. Við erum búnir að verjast mjög vel og fá lítið af mörkum á okkur.

En okkur hefur gengið bölvanlega að skora og það er kannski búinn að vera okkar akkilesarhæll í sumar. Bæði erum við ekki nægilega góðir að búa til dauðafærin og þegar við fáum þau loksins þá erum við ekki að nýta þau nægilega vel,“ sagði Rúnar.

Úrslit dagsins þýða að Fram hefur misst af sjötta sætinu og þar með sæti í efri hluta deildarinnar. Rúnar var að vonum svekktur að missa af sjötta sætinu.

„Við erum búnir að vera í því, innan topp sex nánast allt tímablið þar til við töpuðum gegn KA í síðustu umferð.

Við erum búnir að eiga nokkra sénsa á að styrkja stöðu okkar þar og við höfum ekki tekið sénsana og úr verður að við þurfum að vera í neðri hlutanum.

Nú þurfum við einbeita okkur að því. Botnbarátta framundan, við erum ekkert hólpnir þó svo við töldum okkur með sigri í dag vera komnir í úrslitaleik gegn FH um sjötta sætið,“ sagði Rúnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert