„Þetta eru skilaboð til þjálfarans í U21“

Danijel Dejan Djuric í leiknum í kvöld.
Danijel Dejan Djuric í leiknum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings, var að vonum mjög sáttur eftir magnaðan endurkomusigur á Val, 3:2, í Bestu deild karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.

„Þetta var örugglega það skemmtilegasta sem ég hef gert. Þetta var ógeðslega gaman. Kredit á liðið.“

Í fyrri hálfleik var Víkingur tveimur mörkum undir og manni færri og leit þetta ekkert allt of vel út á ákveðnum tímapunkti.

„Mér finnst það ekki. Mér leið eins og við værum alltaf með þetta og værum alltaf inni í leiknum, þó að við værum 10 á móti 11. Í hálfleik voru skilaboðin að skora eitt mark í einu.“

Hólmar Örn Eyjólfsson fékk svo að líta beint rautt spjald fyrir brot á Danijeli og við það hófst endurkoma Víkings.

„Þetta var klárt rautt fannst mér, hann er bara allt of seinn í þetta. Mér fannst þetta geggjað, þetta var svarið sem ég vildi. Ég er búinn að vera í smá öldudal og pirraður að hafa ekki verið valinn í U21 árs landsliðið núna. Þetta er skilaboð til þjálfarans þar,“ en þjálfari U21 árs landsliðs karla er Ólafur Ingi Skúlason. 

„Maður hefur verið í smá öldudal en ég finn að ég er kominn aftur. Þetta er einmitt tímapunkturinn sem ég vil snúa þessu við, svona í lokin þegar allir skemmtilegustu leikirnir eru framundan. Þetta er bara geggjað.“

Þegar jafnt var orðið í liðum var bara eitt lið á vellinum og Víkingar völtuðu yfir Valsmenn.

„Já, við vissum það þegar þetta varð 10 á móti 10 að við værum að fara að rúlla yfir þá. Það var bara tímaspursmál hvenær við myndum skora annað og þriðja markið.“

Víkingur er nú þremur stigum á eftir Breiðabliki með leik til góða. Það stefnir því allt í rosalega toppbaráttu fram í síðustu umferð.

„Já ekki spurning. Þetta er bara gaman, við vildum hafa þetta gaman og spila skemmtilega leiki. Áhorfendur eiga eftir að fá mjög góða leiki á næstunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert