Við áttum seinni hálfleikinn

Guðmundur Kristjánsson ræðir við Pétur Guðmundsson dómara.
Guðmundur Kristjánsson ræðir við Pétur Guðmundsson dómara. mbl.is/Ólafur Árdal

Jökull Elísarbetarson þjálfari Stjörnunnar var ánægður með 3:0 sigur á FH í 21. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. mbl.is ræddi við Jökul strax eftir leik.

Myndir þú segja að þetta hafi verið anngjörn úrslit miðað við hvernig leikurinn þróaðist?

„já, ef við tökum allt saman þá held ég það. Þeir skapa hættulegri færi í fyrri hálfleik, sérstaklega úr hornum og föstum leikatriðum en mér fannst við eiga síðari hálfleik. Mér fannst þeir ekki fá nein færi og þeim tókst ekkert að brjóta okkur. Á sama tíma náum við að halda þeim niðri í hornunum."

Jökull Elísabetarson.
Jökull Elísabetarson. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Með þessum sigri er Stjarnan nánast búin að tryggja sér sæti í efri hlutanum. Það hlýtur að hafa verið markmiðið ekki satt?

„Auðvitað teljum við okkur eiga að vera í efri hlutanum en það var ekki markmiðið sérstaklega með leiknum í dag.

Síðustu leikir hafa verið mjög góðir hjá okkur. Það hefur verið stígandi og við erum að spila betri og framsæknari fótbolta. Markmiðið er fyrst og fremst að halda áfram að verða betri í því sem við trúum á. Við getum gert betur en í dag og við þurfum að gera það í næsta leik."

Næsti leikur er gegn Vestra. Hvað þarf Stjarnan að bæta fyrir þann leik?

„Við þurfum að vera klárir frá fyrstu mínútu og vera með fókus í öllum atriðum sama hvað gengur á. Ef við gleymum okkur eitthvað gegn Vestra þá geta þeir refsað um hæl með skyndisóknum, föstu leikatriði eða bara með því að spila sig í gegn. Fókusinn í dag var frábær en á sama tíma myndi ég vilja að við byrjum að skapa eitthvað fyrr í leiknum."

Eitthvað sem þú hefðir viljað sá þitt lið gera betur í dag?

„Já kannski vera bara meira afgerandi eins og í seinni hálfleik. Mér leið betur með föstu leikatriðin hjá FH í seinni hálfleik af því mér fannst við hafa náð ágætis tökum á þeim þrátt fyrir að ég telji að FH sé besta liðið í föstum leikatriðum í dag. Þannig að það væri svona það helsta," sagði Jökull í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka