Ótrúlegur endurkomusigur Víkings gegn Val

Danijel Dejan Djuric og Birkir Már Sævarsson í leiknum í …
Danijel Dejan Djuric og Birkir Már Sævarsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Víkingur vann ótrúlegan endurkomusigur á Val, 3:2, í gríðarlega mikilvægum leik í toppbaráttu Bestu deildar karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld. Leikurinn var gífurleg skemmtun, ein allra skemmtilegasti leikur tímabilsins.

Fyrri hálfleikurinn var bráðfjörugur strax frá fyrstu mínútu en heimamenn voru sterkari aðilinn til að byrja með. Nikolaj Hansen fékk fyrsta færi leiksins á 11. mínútu en hann var þá örlítið of seinn í boltann eftir fyrirgjöf Valdimars Þórs Ingimundarsonar og tæklaði boltann framhjá markinu.

Það er þess virði að taka fram að þegar vallarklukkan sló í 17 mínútur minntust stuðningsmenn Víkings hinnar 17 ára gömlu Bryndísar Klöru Birgisdóttur. Bryndís Klara lést á Landspítalanum á föstudagskvöld eftir hryllilega árás í miðborg Reykjavíkur á Menningarnótt. Stuðningsmannahópur Víkings klappaði í mínútu í Víkinni í kvöld og tóku aðrir stuðningsmenn Víkings, sem og stuðningsmenn Vals undir. Virkilega falleg stund, blessuð sé minning Bryndísar Klöru.

Á 21. mínútu dró svo til tíðinda í leiknum. Aron Elís Þrándarsson henti sér þá í tæklingu á Bjarna Mark Antonssyni á gulu spjaldi, og fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Ekki gáfulegt hjá þessum reynslumikla leikmanni en þrátt fyrir að hafa mögulega aðeins komist í boltann fór hann með sólann og undan í Bjarna, og fékk réttilega að líta sitt annað gula spjald.

Örskömmu síðar náðu gestirnir svo forystunni. Aron Jóhannsson átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri og eftir að Patrick Pedersen hafði skallað í stöngina var Gylfi Þór Sigurðsson fyrstur að átta sig og kom boltanum yfir marklínuna af stuttu færi.

Á 33. mínútu tvöfölduðu gestirnir svo forystuna. Bjarni Mark komst þá upp vinstri vænginn og setti boltann fyrir markið þar sem Tarik Ibrahimagic setti boltann virkilega klaufalega í eigið net. Ibrahimagic virtist vera algjörlega pressulaus á fjærsvæðinu en tókst samt sem áður ekki betur til.

Það var mikill hiti í fyrri hálfleiknum og fóru fjölmörg spjöld á loft, þ.a.m. sjö gul spjöld. Þá vildu bæði lið fá vítaspyrnu og gestirnir meira að segja í tvígang. Fyrst féll Patrick Pedersen í teignum eftir samskipti við Viktor Örlyg Andrason en ekkert var dæmt og svo virtist boltinn fara greinilega í hönd varnarmanns Víkings eftir hornspyrnu skömmu síðar. Víkingar vildu svo vítaspyrnu þegar Nikolaj Hansen féll í teignum þegar 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum en Sigurður Hjörtur Þrastarson, frábær dómari leiksins, spjaldaði Hansen fyrir leikaraskap.

Á 65. mínútu varð svo jafnt í liðum á nýjan leik. Hólmar Örn Eyjólfsson missti boltann þá of langt frá sér í vörninni og fór af miklum krafti í Danijel Dejan Djuric sem náði að pota boltanum í burtu. Sigurður hikaði ekki og gaf Hólmari beint rautt spjald.

Upp úr aukaspyrnunni minnkaði Víkingur svo muninn. Boltanum var lyft á fjærsvæðið þar sem varamaðurinn Helgi Guðjónsson skallaði hann aftur fyrir markið, í hættusvæðið, þar sem hann hrökk af Aroni Jóhannssyni og í netið.

Á 74. mínútu voru Víkingar svo búnir að jafna metin. Danijel Dejan átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri og eftir virkilega gott hlaup úr djúpinu mætti Ibrahimagic inn á teiginn og stangaði boltann í netið.

Níu mínútum síðar komust Víkingar svo yfir. Valdimar Þór gerði þá frábærlega og keyrði með boltann upp völlinn. Hann barst svo út til hægri á Karl Friðleif Gunnarsson sem setti boltann með grasinu í fullkomið svæði þar sem Ari Sigurpálsson mætti og skoraði í opið mark. Algjörlega frábær endurkoma hjá Víkingum sem nýttu sér það heldur betur þegar jafnt varð í liðum á nýjan leik.

Valsmönnum gekk illa að skapa færi það sem eftir lifði leiks og Víkingar áttu svör við öllum tilraunum þeirra. Lokatölur í Víkinni því 3:2, í einum allra skemmtilegasta leik tímabilsins.

Víkingur er því í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Breiðabliks með leik til góða. Tap Vals þýðir það að liðið hefur svo gott sem stimplað sig út úr toppbaráttunni, en liðið er 11 stigum á eftir Breiðabliki.

Þar sem að dómgæsla á Íslandsmótinu er yfirleitt mikið hitamál, sér í lagi þegar dómararnir gera mistök, verður undirritaður að gefa Sigurði Hirti Þrastarsyni og hans teymi stórt hrós fyrir sína frammistöðu í kvöld. Mikill hiti var í leikmönnum og var þetta líklega einn allra erfiðasti leikur sumarsins til að dæma en dómarateymið leysti þetta verkefni með miklum sóma.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Vestri 0:0 Fylkir opna
90. mín. Morten Ohlsen Hansen (Vestri) fær gult spjald
Man. United 0:3 Liverpool opna
90. mín. Leik lokið
Tindastóll 2:1 Keflavík opna
97. mín. Leik lokið Heimakonur í Tindastól vinna 2-1 sigur á Keflavík og hafa komið sér þægilega fyrir með 16 stig í botnbaráttunni. Fylkir og Keflavík eru í tveimur neðstu sætunum með 10 stig.
KA 2:3 Breiðablik opna
90. mín. Arnór Gauti Jónsson (Breiðablik) fær gult spjald
FH 0:3 Stjarnan opna
90. mín. Emil Atlason (Stjarnan) skorar 0:3. Emil fær boltann frá vinstir og skorar örugglega.
KR 4:2 ÍA opna
90. mín. Gyrðir Hrafn Guðbrandsson (KR) fær gult spjald Kom í veg fyrir að Árni næði að sparka boltanum hratt fram
HK 1:0 Fram opna
90. mín. Guðmundur Magnússon (Fram) fær gult spjald

Leiklýsing

Víkingur R. 3:2 Valur opna loka
90. mín. Tarik Ibrahimagic (Víkingur R.) fer af velli +4 - Frábær í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka