Biðum í 20-30 ár og gerðum ekki neitt

Þorvaldur Örlyggsson skemmti sér vel á fundinum í dag.
Þorvaldur Örlyggsson skemmti sér vel á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta eru stórkostlegar fréttir fyrir KSÍ og alla knattspyrnuhreyfinguna,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is.

Fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar, KSÍ og FRÍ undirrituðu í dag sameiginlega viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal. Um er að ræða fyrsta skref að uppbyggingu tveggja aðskilinna þjóðarleikvanga utanhúss í Laugardal.

Laugardalsvöllur verður byggður upp sem knattspyrnuvöllur eingöngu, þar sem mögulegt verður að leika stærstan hluta ársins. Fyrsti áfangi í uppbyggingu leikvangsins verður að skipta út núverandi grasi á vellinum fyrir blandað gras (svokallað hybrid-gras) og setja hitunarkerfi undir völlinn.

„Við erum búin að bíða lengi eftir því að komast af stað og þetta er uppbygging sem er sem betur fer að hefjast. Þetta er spennandi,“ sagði Þorvaldur. En hvers vegna hybrid-gras?

„Ég tel að þetta sé besta lausnin þegar við horfum á alþjóðlegan fótbolta á þessum velli. Við höfum nýtt gervigrasvellina hjá félagsliðunum mjög vel. Við sjáum hvernig þróunin verður og hvort við höldum síðan áfram með hybrid-gras. Ég tel að þetta sé besta lausnin fyrir okkar þjóðarleikvang á þessum tímapunkti.“

Þorvaldur sagði enn drauminn og langtímamarkmiðið vera að fá fjórar stúkur á Laugardalsvöll og stækka hann verulega.

„Við verðum í samtali við ríkið og borg hvernig næstu skref verða í aðstöðunni í kring, eins og klefa og stúkur. Draumurinn og langtímaplanið er að hafa fjórar stúkur.

Við sjáum hvað það tekur langan tíma. Við biðum í 20-30 ár og gerðum ekki neitt. Við getum líka haldið áfram að hugsa og gera ekki neitt en það er ekki lausn sem hefur reynst vel,“ sagði Þorvaldur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert