Gætum loks fengið rosalegan lokasprett

Víkingurinn Aron Elís Þrándarson og Blikinn Viktor Örn Margeirsson.
Víkingurinn Aron Elís Þrándarson og Blikinn Viktor Örn Margeirsson. Eggert Jóhannesson

Eftir 21. og næstsíðustu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í gær er ljóst hvaða lið verða í efri hlutanum sem og neðri hlutanum þegar deildinni verður skipt í tvennt eftir lokaumferðina. 

Lokaumferð hefðbundinnar deildar fer fram sunnudaginn 15. og mánudaginn 16. september en eftir það verður deildinni skipt í efri og neðri hluta. 

Þá mætast efstu sex liðin innbyrðis sem og neðstu sex. 

Þetta er þriðja árið sem þetta kerfi er notað en síðustu tvö ár hefur ekki verið mikil spenna. Árið 2022 varð Breiðablik auðveldlega meistari og í fyrra vann Víkingur sannfærandi. 

Nú eru liðin tvö hins vegar í mikilli toppbaráttu. Breiðablik er með 46 stig á toppnum en Víkingur er í öðru sæti með 43 en á leik til góða og er með betri markatölu. Liðið sem hafnar ofar eftir lokaumferðina fær heimleik gegn hinu liðinu, sem gæti skipt öllu máli. 

Æsispennandi Evrópubarátta

Þá er mikil spenna í Evrópubaráttunni en Valur er með 35 í þriðja sæti, FH í fjórða með 32 og ÍA og Stjarnan í fimmta og sjötta með 31 stig. 

Ef Víkingur vinnur úrslitaleik bikarsins gegn KA á Laugardalsvelli fá liðin í þriðja og fjórða sæti þátttökurétt í Evrópu á næsta tímabili. 

Ef KA vinnur fær hins vegar aðeins liðið í þriðja sæti þátttökurétt. 

Valsmenn eru gott sem öruggir með þriðja sætið, sem er jákvætt fyrir þá því þá fá þeir þrjá heimaleiki frekar en tvo eins og næstu þrjú lið. 

Emil Atlason er lykilmaður Stjörnunnar.
Emil Atlason er lykilmaður Stjörnunnar. mbl.is/Ólafur Árdal

Allt undir á fallsvæðinu

Fylkir er í neðsta sæti fyrir síðustu umferðina með 17 stig, Vestri er í næstneðsta sæti með 18, HK í tíunda sæti með 20 og KR í níunda sæti með 21. 

Niðurröðun skiptir máli hér en neðsta sætið þarf að mæta bæði 11. og 10. sæti á útivelli. 

Þá eru KA og Fram einnig í neðri hlutanum en það er ekki mikið undir hjá þeim tveimur. 

Hvað gera Vestramenn?
Hvað gera Vestramenn? mbl.is/Ólafur Árdal

Lokaleikirnir: 

Sunnudagurinn 15.

Breiðablik - HK klukkan 14 á Kópavogsvelli
Fram - FH klukkan 14 á Framvelli
ÍA - KA - klukkan 14 á Akranesi
Stjarnan - Vestri klukkan 14 í Garðabæ

Mánudagurinn 16. 

Fylkir - Víkingur klukkan 19.15 í Árbæ
Valur - KR klukkan 19.15 á Hlíðarenda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert