Sóknarmaðurinn Orri Steinn Óskarsson skipti úr danska félaginu FC Kaupmannahöfn og í Real Sociedad á Spáni um mánaðarmótin. Félagaskiptin gengu í gegn á lokadegi félagaskiptagluggans.
„Það var mjög mikið að gerast þennan dag og þetta var svolítið erilsamt. Maður vissi ekki alveg hvort þetta væri að fara að gerast eða ekki. Á endanum small þetta allt saman og maður var mættur upp í flugvél á leiðinni til Spánar.
Það er geggjað og mjög spennandi að fara þangað. Ég er sjúklega stoltur og spenntur fyrir framtíðinni. Auðvitað var erfitt að kveðja FCK, hjartaklúbbinn minn í Danmörku þar sem ég varð að manni, en ég gat ekki sagt nei við Real Sociedad,“ sagði Orri við mbl.is.
Hann var nýbúinn að skrifa undir nýjan samning við FCK þegar tilboðið frá spænska félaginu barst.
„Sumarið var mjög gott. Ég átti gott undirbúningstímabil og skrifaði undir nýjan samning. Svo vorum við alltaf undirbúnir fyrir það að það gæti komið eitthvað upp ef ég myndi halda áfram að skora. Ég hélt mínu striki og þá kom Real Sociedad og mér fannst það mjög spennandi,“ sagði Orri, sem er kominn í stórt félag í einni sterkustu deild heims.
„Þetta er mjög stolt félag og það er mikið stolt í Baskalandi. Það er mikið af ungum og uppöldum leikmönnum þarna og svo sækja þeir gjarnan unga leikmenn líka og það heillaði mig. Fótboltinn sem þeir spila henta mér mjög vel. Mér fannst allt við þetta gott og möguleikarnir á að bæta mig þarna eru endalausir.“
Orri byrjaði tímabilið í Danmörku gríðarlega vel, skoraði grimmt og vakti með því athygli stærri félaga.
„Ég hef verið með mikið sjálfstraust og spilað mjög vel. Þótt liðið hefi ekki alltaf verið að spila vel tókst mér að láta mitt mark á leikinn. Ég fann fyrir miklu trausti frá þjálfaranum og öllum í kringum mig. Það hentar mér vel sem leikmanni að finna fyrir þessu trausti í kringum mig,“ sagði Orri.