Gylfi: Einn skemmtilegasti útivöllur sem ég hef spilað á

Gylfi Þór Sigurðsson á landsliðsæfingu í dag.
Gylfi Þór Sigurðsson á landsliðsæfingu í dag. Eggert Jóhannesson

Gylfi Þór Sigurðsson, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í fótbolta frá upphafi með 27 mörk, er glaður með að vera kominn aftur í landsliðshópinn en hann lék síðast með landsliðinu gegn Liechtenstein 16. október á síðasta ári.

Gylfi sló einmitt markametið í leiknum með því að skora tvö mörk í 4:0-sigri.

„Mér leið mjög vel þegar ég fékk að vita að ég væri í hópnum og var ánægður að heyra fréttirnar. Ég er auðvitað sáttur við að vera kominn aftur. Það er langt síðan síðast, út af meiðslum og hinu og þessu. Ég er spenntur fyrir verkefninu,“ sagði Gylfi við mbl.is.

Hann hefur ekki leikið átta síðustu landsleiki, flesta þeirra vegna meiðsla. Hann var svo ekki valinn í leikina gegn Ísrael og Úkraínu í mars, í umspili um sæti á lokamóti EM.

„Ég var meiddur í júní, með brjósklos, og þá gat ég ekki verið með í þeim leikjum. Það var í mars þegar ég var að koma til baka úr meiðslum, þá vildi ég vera með, og það var leiðinlegt að vera ekki valinn,“ sagði hann.

Gylfi Þór Sigurðsson skorar sitt 27. landsliðsmark, gegn Liechtenstein á …
Gylfi Þór Sigurðsson skorar sitt 27. landsliðsmark, gegn Liechtenstein á síðasta ári. Kristinn Magnússon

Ísland leikur við Svartfjallaland á heimavelli á föstudag og Tyrkland á útivelli á mánudag í Þjóðadeildinni.

„Mér líst vel á þetta verkefni. Það er gott að fá heimaleikina fyrst og fá tíma í vikunni til að undirbúa hitt og þetta. Svo förum við til Tyrklands á geggjaðan útivöll. Þetta eru tveir frábærir leikir til að byrja á.“

Gylfi er spenntur að spila í Tyrklandi, en það verður fyrsti útileikur miðjumannsins með landsliðinu frá því liðið lék við Danmörku í Þjóðadeildinni 15. nóvember árið 2020, og sá fyrsti með áhorfendum síðan Ísland vann Moldóvu 17. nóvember 2019.

Hann þurfti að hugsa sig lengi um þegar hann var spurður hvort hann muni eftir síðasta útileik. „Þú verður að fletta því upp held ég,“ sagði hann og hélt áfram.

„Það verður flott að fara til Tyrklands, fá fullan völl og brjálæða stemningu. Þetta er einn skemmtilegasti útivöllur sem ég hef spilað á. Það er geggjuð stemning í Tyrklandi, mikil læti og svo hefur gengið mjög vel á móti þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert