Gylfi tjáði sig um mögulegt næsta skref

Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Gylfi Þór Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu útilokar ekki að leika sem atvinnumaður erlendis á nýjan leik. Gylfi er kominn í gott stand og hefur leikið vel með Val í Bestu deildinni í ár.

Miðjumaðurinn er kominn aftur í íslenska landsliðið eftir árs fjarveru og í sínu besta standi í langan tíma.

„Ég er með hugann opinn. Ég þarf að setjast niður eftir þetta verkefni og sjá hvernig næstu vikur verða. Ég þarf að plana hvað ég ætla að gera.

Nú þegar ég er kominn í betra stand er meira vit í því að vera opinn fyrir því að fara út. Ég hef sett það svolítið til hliðar því ég vildi koma mér í stand og vera heill heilsu fyrst. Ég veit eiginlega ekki hvað planið er,“ sagði Gylfi við mbl.is.

Gylfi hóf atvinnumannaferilinn eftir tveggja ára fjarveru á nýjan leik er hann gekk í raðir Lyngby í Danmörku um mitt ár 2023, eftir samtöl við Frey Alexandersson þáverandi þjálfara danska liðsins. Freyr er nú kominn til Kortrijk í Belgíu, en Gylfi er ekki á leiðinni þangað.

„Ég hef ekkert heyrt í honum og ég held hann geti ekki fengið fleiri leikmenn til sín,“ sagði Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert