„Smá vonbrigði þegar við fengum fréttirnar“

Ásta Eir Árnadóttir.
Ásta Eir Árnadóttir. mbl.is/Eyþór Árnason

„Við erum allar mjög spenntar fyrir þessu verkefni,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á Kópavogsvelli í dag.

Breiðablik mætir Minsk frá Hvíta-Rússlandi í 1. umferð Meistaradeildarinnar á Kópavogsvelli á morgun klukkan 19 en sigurvegarinn úr einvíginu mætir annaðhvort Sporting Lissabon frá Portúgal eða Eintracht Frankfurt frá Þýskalandi í úrslitaleik um sæti í 2. umferðinni.

„,Þessir Evrópuleikir eru alltaf mjög skemmtilegir og þetta er keppni sem allir vilja spila í. Það er gaman að mæta nýjum andstæðingum og það er mikil tilhlökkun að takast á við þetta,“ sagði Ásta Eir.

Alltaf gott að spila á Kópavogsvelli

Þetta er í fyrsta sinn sem leikið er á Íslandi í 1. umferð Meistaradeildarinnar en undanfarin ár hafa Blikar ferðast til bæði Þrándheims í Noregi og Siauliai í Litháen í 1. umferðinni.

„Ég skal alveg viðurkenna það að það voru smá vonbrigði þegar við fengum fréttirnar, að við værum ekki að fara til Portúgals. En á sama tíma þá held að þetta sé fínt. Vonandi verður góð mæting á völlinn og að áhorfendur verði með okkur í liði. Það er alltaf gott að spila á Kópavogsvelli og það gæti gert gæfumuninn.“

Blikar hafa verið í fantaformi í ágústmánuði og sitja á toppi Bestu deildarinnar með 51 stig, stigi meira en Íslandsmeistarar Vals, þegar fjórum umferðum er ólokið.

„Við höfum spilað mjög vel og ef við höldum uppteknum hætti gegn Minsk þá eigum við að ná í góð úrslit gegn þeim,“ bætti Ásta Eir við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert