Staðirnir sem maður vill vera á

Andri Lucas Guðjohnsen á landsliðsæfingu í dag.
Andri Lucas Guðjohnsen á landsliðsæfingu í dag. Eggert Jóhannesson

Andri Lucas Guðjohnsen landsliðsmaður í fótbolta skipti yfir til Gent í Belgíu frá Lyngby í Danmörku í sumar. Hann er ánægður með skref upp á við á sínum ferli.

„Þetta hefur verið fínt. Þetta er góður hópur og Það hafa allir innan félagsins hjálpað mér að koma mér fyrir. Það hefur gengið vel. Þetta er risastórt félag og sterkari deild en sú danska.

Leikmenn eru betri, æfingasvæðin flottari og vellirnir stærri. Þetta eru staðirnir sem maður vill vera á, á þessum aldri. Ég er líka að fá að spila,“ sagði Andri Lucas og hélt áfram:

Andri Lucas Guðjohnsen og Daníel Leó Grétarsson á æfingunni.
Andri Lucas Guðjohnsen og Daníel Leó Grétarsson á æfingunni. Eggert Jóhannesson

„Þetta er mjög sterk deild. Hún er ekki í ósvipuð þeirri dönsku en allt er tíu prósent erfiðara. Menn eru sneggri, sterkari og það er meira tempó. Við erum með nýtt þjálfarateymi, nýja stjórn og marga nýja leikmenn.

Við erum ungt lið og það er uppbygging í gangi hjá okkur. Byrjunin var hæg en við höfum ekki tapað í fimm leikjum í röð,“ sagði hann en Gent er í tólfta sæti af sextán liðum með sjö stig eftir fimm leiki. Liðið á leik til góða á flest lið og getur farið upp í þriðja sæti.

Andri er þakklátur fyrir góða tíma hjá Lyngby, þar sem honum gekk afar vel, eftir erfiða tíma hjá Norrköping í Svíþjóð.

„Það kom mér aftur í gang að fara þangað, ég fékk sjálfstraustið mitt til baka og ég fékk að spila mikið. Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem ég fékk þar,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert