„Þetta er nýtt fyrir mig“

Nik Chamberlain.
Nik Chamberlain. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta er nýtt fyrir mig og suma leikmenn liðsins en svo eru aðrar hérna sem hafa upplifað þetta nokkrum sinnum,“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á Kópavogsvelli í dag.

Breiðablik mætir Minsk frá Hvíta-Rússlandi í 1. umferð Meistaradeildarinnar á Kópavogsvelli annað kvöld klukkan 19 en sigurvegarinn úr einvíginu mætir annaðhvort Sporting Lissabon frá Portúgal eða Eintracht Frankfurt frá Þýskalandi í úrslitaleik um sæti í 2. umferðinni.

„Við höfum verið að spila mjög vel í ágústmánuði, kannski að undanskyldum bikarúrslitaleiknum gegn Val sem mér fannst þó ekki alslæmur. Annars hefur verið mjög góður taktur í þessu hjá okkur. Við höfum líka verið að skora mikið af mörkum sem er alltaf jákvætt,“ sagði Nik.

Byrjum á Minsk

Minsk hafnaði í öðru sæti hvítrússnesku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, 9 stigum á eftir meistaraliði Dinamo-BGU.

„Ég á von á erfiðum leik gegn Minsk en við erum búin að fara vel yfir þeirra leik. Liðið er vel undirbúið og tel mig vita nokkurn vegin út í hvað við erum að fara gegn þeim. Þetta er leikur sem við getum unnið og ef það tekst þá mætum við annaðhvort Eintracht Frankfurt eða Sporting Lissabon. Bæði lið eru mjög góð og það yrði mjög erfiður leikur, sama hver andstæðingurinn yrði. Við skulum samt bara byrja á Minsk og sjá svo hvernig þetta þróast.“

Nokkrir leikmenn Breiðabliks léku með liðinu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar árið 2021 og eru reynslunni ríkari í keppninni.

„Þeirra reynsla mun klárlega nýtast okkur í þessu verkefni. Þær vita út í hvað við erum að fara og kunna að stilla spennustigið rétt fyrir svona leiki, sem er mjög jákvætt,“ bætti Nik við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert