Var kominn á endastöð í Belgíu

Jón Dagur Þorsteinsson með sólina í augunum á landsliðsæfingu í …
Jón Dagur Þorsteinsson með sólina í augunum á landsliðsæfingu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er búið að vera fínt,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson landsliðsmaður í fótbolta í samtali við mbl.is um fyrstu dagana hjá Hertha Berlín í Þýskalandi.

Jón gekk í raðir félagsins frá OH Leuven í Belgíu á dögunum og er spenntur fyrir komandi tímum hjá stóru félagi í þýsku höfuðborginni.

„Ég er ekki kominn með íbúð en ég er búinn að ná að skoða Berlín og mér líst mjög vel á þetta,“ sagði hann.

Jón Dagur Þorsteinsson á æfingunni með Stefáni Teiti Þórðarsyni og …
Jón Dagur Þorsteinsson á æfingunni með Stefáni Teiti Þórðarsyni og Hákoni Arnari Haraldssyni. Eggert Jóhannesson

Jón Dagur kom til Leuven frá AGF í Danmörku fyrir tveimur árum. Hann var staðráðinn í að skipta um félag í sumar.

„Það var alltaf planið að skipta um félag, þótt það hafi tekið sinn tíma. Ég er svolítið kominn á endastöð hjá Leuven. Ég var tvö mjög fín tímabil þarna en liðið hefur verið um miðja deild og mér fannst kominn tími til að prófa eitthvað nýtt,“ sagði hann.

Hertha er á sínu öðru tíma­bili í B-deild­inni eft­ir fall tíma­bilið 2022/​2023. Þar á und­an var liðið níu tíma­bil í röð í efstu deild.

„Þetta er risastórt félag sem ætlar sér upp. Þetta tikkaði í mörg box og þegar þetta kom upp var ég mjög spenntur að ganga frá þessu. Þetta félag á heima í efstu deild, enda mjög stórt félag. Við ætlum okkur upp.“

Ljósmynd/Hertha Berlín

Ísland mætir Svartfjallalandi á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni á föstudagskvöld og svo Tyrklandi á útivelli á mánudag.

„Mér líst vel á þessa leiki. Það er gaman að byrja á heimaleik og fara síðan í krefjandi útileik gegn Tyrklandi þar sem verður örugglega mikil stemning. Það er mikilvægt að byrja þessa undankeppni vel,“ sagði Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert