Katrín Ásbjörnsdóttir varð í kvöld önnur konan til að skora meira en eina þrennu fyrir íslenskt félagslið í Evrópuleik í knattspyrnu þegar Breiðablik vann Minsk frá Hvíta-Rússlandi, 6:1, í undanúrslitum 1. umferðar Meistaradeildarinnar á Kópavogsvellinum.
Þetta er önnur Evrópuþrenna Katrínar sem skoraði einnig þrjú mörk fyrir Stjörnuna árið 2017 þegar Garðabæjarliðið vann Istatov frá Norður-Makedóníu, 11:0.
Margrét Lára Viðarsdóttir var áður sú eina sem hafði skorað meira en eina Evrópuþrennu en Margrét skoraði einu sinni fjögur mörk í Evrópuleik og þrisvar þrjú mörk fyrir Val á árunum 2005 til 2008.
Þá hefur Katrín nú skorað 11 mörk í Evrópuleikjum og er orðin þriðja markahæst af leikmönnum íslenskra liða í Evrópukeppni.
Þær sem hafa skorað fleiri mörk fyrir íslensk lið eru Margrét Lára Viðarsdóttir, sem skoraði 33 Evrópumörk fyrir Val, og Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem skoraði fyrr í dag sitt 17. Evrópumark þegar Valur vann stórsigur á Ljuboten, 10:0. Fyrstu sextán mörkin skoraði Berglind fyrir Breiðablik.