„Hún slasaði sig reyndar á æfingu um daginn,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á Kópavogsvelli í gær.
Edda Garðarsdóttir, fyrrverandi landsliðskona og aðstoðarþjálfari Breiðabliks, tekur virkan þátt í æfingum liðsins en hún verður á hliðarlínunni í kvöld þegar Breiðablik mætir Minsk frá Hvíta-Rússlandi í 1. umferð Meistaradeildarinnar á Kópavogsvelli klukkan 19.
„Hún er haltrandi þessa dagana en framan af sumri hefur hún fyllt upp í æfingum, ef það vantar leikmenn í spil. Hún fékk smá högg um daginn þannig að hún þurfti að taka sér pásu.
Það var ein af þeim ungu sem fór heldur harkalega í hana. Hún er algjör harðhaus og það var frábært að fá hana því hún hefur komið mjög vel inn í þetta,“ sagði Ásta Eir.
Edda var áður aðstoðarþjálfari Þróttar úr Reykjavík, þegar Nik Chamberlain var með liðið, en þau færðu sig saman yfir í Kópavoginn þegar Nik var ráðinn þjálfari Breiðabliks síðasta haust.
„Þau er í raun eins og systkini og það er frábært jafnvægi á milli þeirra. Þau eru virkilega gott teymi og vega hvort annað upp. Þau vinna mjög vel saman og þau eru frábærir þjálfarar, bæði tvö,“ bætti Ásta Eir við í samtali við mbl.is.