„Ég kaupi svo bara nokkra bjóra fyrir Kalla“

Nik Anthony Chamberlain.
Nik Anthony Chamberlain. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Samantha hefur farið virkilega vel af stað sem er mjög ánægjulegt fyrir okkur,“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á Kópavogsvelli í dag.

Samantha Smith hefur farið á kostum með Breiðabliki frá því hún gekk til liðs við Blika frá 1. deildarliði FHL um miðjan ágústmánuð en hún hefur skorað þrjú mörk í þremur leikjum fyrir liðið, ásamt því að leggja upp fjögur mörk til viðbótar.

Vilja fá hana í Kópavoginn

Eins og stendur er hún á láni hjá Blikum en félagið vill fá hana í Kópavoginn fyrir næsta keppnistímabil.

„Við viljum fá hana hingað fyrir næsta keppnistímabil og við erum í viðræðum við umboðsmann hennar. Það er oft þannig með þessa erlendu leikmenn, þegar þeir standa sig vel, þá verða þeir eftirsóttir og  Kalli [Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari FHL] veit það og gerir sér sér grein fyrir því.

Hún hefur staðið sig virkilega vel fyrir okkur og það er því eðlilegt að við viljum halda henni hérna. Ég kaupi svo bara nokkra bjóra fyrir Kalla, þegar að við skellum okkur saman til Bandaríkjanna í vetur, og þá verða allir sáttir,“ bætti Nik við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert