Fyrstu skref Vals og Blika í Meistaradeild

Íslandsmeistararnir hefja leik í Meistaradeildinni í dag.
Íslandsmeistararnir hefja leik í Meistaradeildinni í dag. mbl.is/Eyþór Árnason

Breiðablik og Valur leika í dag og kvöld fyrri leiki sína í 1. umferð Meistaradeildar kvenna í fótbolta.

Þar er leikið í fjögurra liða riðlum, með undanúrslitum og úrslitaleik og riðill Breiðabliks er leikinn á Kópavogsvellinum en Valsmenn leika í Enschede í Hollandi.

Breiðablik mætir Minsk frá Hvíta-Rússlandi á Kópavogsvelli klukkan 19 í kvöld en hin tvö liðin í riðlinum, Sporting Lissabon frá Portúgal og Eintracht Frankfurt frá Þýskalandi, mætast á sama velli klukkan 14 í dag.

Í Enschede leika Valsmenn við Ljuboten frá Norður-Makedóníu klukkan 11 og síðdegis leikur heimaliðið Twente, með Amöndu Andradóttur fyrrverandi Valskonu innanborðs, gegn Cardiff City frá Wales.

Sigurliðin mætast í úrslitaleikjum á laugardaginn en tapliðin leika þá „sárabótaleiki“ um þriðja sætið. Aðeins sigurlið riðilsins kemst í aðra umferð.

Breiðablik og Valur ættu að eiga alla möguleika á að vinna fyrri viðureignir sínar í dag en ættu þá erfiða úrslitaleiki fyrir höndum á laugardag, Blikar sennilega gegn Eintracht og Valsmenn örugglega gegn Twente.

Í 2. umferð keppninnar síðar í þessum mánuði er leikið á hefðbundinn hátt, heima og heiman, um sæti í riðlakeppninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert