Lykilmenn Víkings missa af stórleiknum í Vesturbæ

Aron Elís Þrándarson fær að líta sitt annað gula spjald …
Aron Elís Þrándarson fær að líta sitt annað gula spjald gegn Valsmönnum. mbl.is/Ólafur Árdal

Aron Elís Þrándarson og Karl Friðleifur Gunnarsson verða báðir fjarverandi þegar Víkingur úr Reykjavík mætir KR í frestuðum leik úr 20. umferð Bestu deild karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í Vesturbæ, föstudaginn 13. september.

Þetta kom fram á fundi Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í gær en báðir taka þeir út leikbann í leiknum. Aron Elís vegna rauða spjaldsins sem hann fékk gegn Val á sunnudaginn síðasta og Karl Friðleifur vegna fjögurra áminninga.

Tveir Valsmenn í bann

Valsararnir Aron Jóhannsson og Hólmar Örn Eyjólfsson verða báðir í banni gegn KR í 22. umferðinni, mánudaginn 16. september, Aron vegna fjögurra áminninga og Hólmar Örn vegna rauða spjaldsins sem hann fékk gegn Víkingum.

Þá verða Blikarnir Arnór Gauti Jónsson og Ísak Snær Þorvaldsson báðir í banni í Kópavogsslagnum gegn HK í Kórnum í Kópavogi, sunnudaginn 15. september, báðir vegna fjögurra gula spjalda. HK-ingurinn Birkir Valur Jónsson missir einnig af leiknum vegna fjögurra áminninga.

Þrír Skagamenn fjarverandi

Skagamennirnir Hinrik Harðarson, Hlynur Sævar Jónsson og þjálfarinn Jón Þór Hauksson verða allir í banni gegn KA, sunnudaginn 15. september. Hinrik og Hlynur vegna fjögurra áminninga og Jón Þór vegna rauða spjaldsins sem hann fékk gegn KR.

Stjörnumaðurinn Kjartan Már Kjartansson verður í banni gegn Vestra, sunnudaginn 15. september, vegna fjögurra gula spjalda og þá missir Fylkismaðurinn Emil Ásmundsson af leik liðsins gegn Víkingum í Árbænum vegna fjögurra gula spjalda, mánudaginn 16. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert