Orri vildi ekki fara til City

Orri Steinn Óskarsson á landsliðsæfingu í gær.
Orri Steinn Óskarsson á landsliðsæfingu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Orri Steinn Óskarsson landsliðsmaður í fótbolta var m.a. orðaður við Englandsmeistara Manchester City í sumar eftir glæsilega byrjun á tímabilinu hjá FCK í Danmörku.

Sóknarmaðurinn ákvað að lokum að ganga í raðir Real Sociedad á Spáni, en hann hafði lítinn áhuga á að sitja á bekknum hjá einu sterkasta liði Evrópu.

„Það er mjög skemmtilegt og maður er stoltur að heyra að City hafði áhuga. Ég pældi ekki mikið í því að fara þangað og tylla mér á bekkinn þar. Það heillar mig ekki núna og það er ekki leiðin sem ég vil fara á mínum ferli. Það er samt geggjað að heyra að þeir hafi haft áhuga,“ sagði hann.

City vildi m.a. fá Orra til félagsins þar sem hann er ekki ósvipaður leikmaður og Erling Haaland, norska stórstjarnan sem er einn besti framherji heims.

„Ég hef alltaf horft á hluti í hans leik sem ég get gert betur og að heyra að við séum líkir er mjög skemmtilegt og eitthvað sem maður sækist í,“ sagði hann.

Næst á dagskrá hjá Orra er heimaleikur gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni á föstudag og svo útileikur gegn Tyrklandi á mánudag.

„Það er geggjað að fá heimaleik á Íslandi og fá stuðningsmennina með okkur. Það verður svo krefjandi út í Tyrklandi með þeirra stuðningsmenn. Það verður spennandi. Það er geggjað að fá keppnisleiki og leiki sem skipta máli,“ sagði Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert