Stærsti Evrópusigurinn hjá Val

Ísabella Sara Tryggvadóttir skoraði þrennu í seinni hálfleiknum gegn Ljuboten …
Ísabella Sara Tryggvadóttir skoraði þrennu í seinni hálfleiknum gegn Ljuboten í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valskonur leika til úrslita um sæti í 2. umferð Meistaradeildar kvenna í fótbolta eftir yfirburðasigur á Ljuboten, meistaraliði Norður-Makedóníu, 10:0, í undanúrslitum 1. umferðar í Enschede í Hollandi í dag.

Þær mæta annaðhvort Twente frá Hollandi eða Cardiff City frá Wales í úrslitaleiknum í Enschede á laugardaginn. Twente og Cardiff mætast klukkan 17.

Valur hafði yfirburði frá fyrstu mínútu, staðan var 4:0 eftir 19 mínútur og 5:0 í hálfleik. Ísabella Sara Tryggvadóttir skoraði þrennu í seinni hálfleik eftir að hafa komið inn á sem varamaður, Jasmín Erla Ingadóttir skoraði tvö mörk og þær Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir, Natasha Anasi, Berglind Rós Ágústsdóttir, Anna Rakel Pétursdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoruðu sitt markið hver.

Þetta er stærsti Evrópusigurinn í sögu Vals en áður hafði Hlíðarendaliðið sigrað Maccabi Holon frá Ísrael 9:0 árið 2008.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði sitt 17. mark fyrir íslenskt lið í Evrópukeppni, en hún hafði áður skorað 16 mörk fyrir Breiðablik. Aðeins Margrét Lára Viðarsdóttir hefur skorað fleiri Evrópumörk en hún gerði 33 mörk fyrir Val á sínum tíma.

Jasmín skoraði á 2. mínútu

Valskonur voru fljótar að ná undirtökum í leiknum því Jasmín Erla Ingadóttir skoraði strax á 2. mínútu, 1:0.

Þær bættu við öðru marki strax því Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir gerði annað markið á 5. mínútu, 2:0, eftir sendingu frá Hailey Whitaker.

Þriðja mark Vals kom á 13. mínútu þegar Natasha Anasi skoraði eftir hornspyrnu Önnu Rakelar Pétursdóttur, 3:0.

Berglind Rós Ágústsdóttir jók forystu Vals enn á 19. mínútu þegar hún skoraði, 4:0.

Fyrsta gula spjaldið fór á loft á 21. mínútu en það fékk varnarmaðurinn Iva Jovanoska fyrir að brjóta á Önnu Rakel Pétursdóttur.

Fimm mörk á fyrstu 35 mínútunum

Eftir hálftíma leik hafði Valur átt tíu markskot gegn engu og fimm hornspyrnur gegn einni.

Anna Rakel Pétursdóttir kom Val í 5:0 á 35. mínútu þegar hún skoraði beint úr aukaspyrnu.

Staðan var 5:0 þegar flautað var til hálfleiks og nokkuð ljóst að Valskonur leika úrslitaleikinn um sæti í 2. umferð á laugardaginn. Valur átti 13 markskot gegn engu í fyrri hálfleik og fimm hornspyrnur gegn tveimur.

Ísabella kom inn á með látum

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, gerði þrjár breytingar á liði sínu í hálfleik. Elísa Viðarsdóttir, Ísabella Sara Tryggvadóttir og Íris Dögg Gunnarsdóttir markvörður komu inn á fyrir Önnu Rakel Pétursdóttur, Fanndísi Friðriksdóttur og Fanneyju Ingu Birkisdóttur.

Ísabella Sara Tryggvadóttir var fljót að setja mark sitt á leikinn því hún kom Val í 6:0 á 51. mínútu eftir sendingu frá Guðrúnu Elísabetu Björgvinsdóttur.

Og mínútu síðar var Ísabella aftur á ferðinni þegar hún bætti við öðru marki sínu, eftir sendingu frá Jasmín Erlu, og var staðan orðin 7:0.

Engu munaði að Ísabella næði þrennu á fimm mínútum því hún átti skot í stöng á 55. mínútu.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom inn á fyrir Katie Cousins á 58. mínútu.

Jasmín Erla Ingadóttir skoraði sitt annað mark á 63. mínútu, eftir sendingu frá Berglindi Rós, og kom Val í 8:0.

Fyrsta markskotið á 65. mínútu

Ljuboten átti sitt fyrsta skot að marki Vals á 65. mínútu en þá voru Valskonur búnar að skjóta 27 sinnum að marki norðurmakedónsku meistaranna.

Karen Espinosa, markverði Ljuboten, var skipt af velli á 68. mínútu en þá hafði hún varið átta skot í leiknum og fengið á sig átta mörk. Mila Pavlovska kom í hennar stað.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir hafði verið inni á vellinum í þrettán mínútur þegar hún kom Val í 9:0 á 71. mínútu eftir sendingu frá Ragnheiði Þórunni.

Nadía Atladóttir kom inn á hjá Val fyrir Guðrúnu Elísabetu Björgvinsdóttur á 71. mínútu.

Þrenna hjá Ísabellu í seinni hálfleik

Ísabella Sara Tryggvadóttir fullkomnaði þrennuna á 81. mínútu þegar hún kom Val í 10:0 eftir sendingu frá Nadíu Atladóttur.

Annað gula spjald leiksins fór á loft á 85. mínútu en það fékk Hava Mustafa í liði Ljuboten.

Valskonur mæta Twente eða Cardiff City í úrslitaleik um sæti …
Valskonur mæta Twente eða Cardiff City í úrslitaleik um sæti í 2. umferð Meistaradeildarinnar á laugardaginn. mbl.is/Eyþór Árnason

Mæta væntanlega Amöndu og Twente

Liðin tvö eru í riðli með Twente frá Hollandi og Cardiff City frá Wales sem mætast klukkan 17 en sigurliðin í leikjunum eigast við í úrslitaleik um sæti í 2. umferð keppninnar á laugardaginn. Með Twente leikur landsliðskonan Amanda Andradóttir sem kom til félagsins frá Val í sumar.

Lið Vals: (4-4-2) Fanney Inga Birkisdóttir (Íris Dögg Gunnarsdóttir 46.) - Hailey Whitaker, Lillý Rut Hlynsdóttir, Natasha Anasi, Anna Rakel Pétursdóttir (Elísa Viðarsdóttir 46.) - Fanndís Friðriksdóttir (Ísabella Sara Tryggvadóttir 46.), Katie Cousins (Berglind Björg Þorvaldsdóttir 58.), Berglind Rós Ágústsdóttir, Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir - Jasmín Erla Ingadóttir, Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir (Nadía Atladóttir 71.)

Varamenn: Íris Dögg Gunnarsdóttir (m), Arna Sif Ásgrímsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Nadía Atladóttir, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, Ísabella Sara Tryggvadóttir, Helena Ósk Hálfdánardóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert