Við kláruðum verkefnið

Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði þrennu fyrir Breiðablik í kvöld.
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði þrennu fyrir Breiðablik í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik komst áfram í úrslit 1. umferðar undankeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu eftir 6:1-stórsigur gegn Minsk frá Hvíta-Rússlandi á Kópavogsvelli í kvöld. Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Við kláruðum verkefnið. Inn á milli spiluðum við glimrandi fótbolta, stundum misstum við einbeitingu. Þegar allt kemur til alls þá kláruðum við verkefnið og við getum verið ánægð með sannfærandi sigur og að sigurinn var aldrei í neinni hættu,“ sagði Nik í viðtali við mbl.is eftir leik.

Þrátt fyrir sex mörk frá Breiðabliki fannst Nik liðið eiga meira inni.

„Ég veit að við getum gert aðeins betur. Þetta var samt alls ekki slæmt. Mörg mörkin voru eftir frábært uppspil, hraða boltahreyfingu og frábærar afgreiðslur. Þau augnablik voru frábær en stundum slökktum við aðeins á okkur,“ sagði Nik.  

Þetta var í fyrsta skiptið sem þú stýrðir liði í Evrópukeppni, hvernig var tilfinningin?

„Það var áhugaverð tilfinning. Sérstaklega að eiga við dómarana. Þeir eru töluvert strangari þegar það kemur að sumum hlutum. Annars var þetta bara góð reynsla, að spila gegn liði þar sem þú veist ekki alveg hverju þú ert að mæta.

Ég held á laugardaginn muni ég finna meira fyrir því þar sem það eru úrslit og allt verður undir. Það verður örugglega meiri Evrópu-stemning. Allavega einn leikur og einn sigur. Kannski ætti ég bara að hætta á toppnum,“ sagði Nik léttur í lund.

Breiðblik mætir Sporting frá Portúgal í úrslitaleik um að komast áfram í 2. umferð á laugardaginn.

„Við vitum að við eigum meira inni þegar að kemur að gæðum í liðinu. Ég hef ekki áhyggjur af því. Við einbeitum okkur nú að Sporting sem mun vera frábær leikur og við sjáum hvað við getum gert,“ sagði Nik að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert