Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir því svartfellska í fyrsta leik sínum í 4. riðli í B-deild Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli annað kvöld klukkan 18.45. Ísland mætir svo Tyrklandi í Izmir á mánudagskvöld. Wales er þá fjórða liðið í riðlinum.
Á meðal leikmanna Svartfjallalands er Stefan Jovetic, sem hefur spilað með liðum á borð við Fiorentina, Manchester City, Sevilla og Inter Mílanó. Ísak vill að íslenska liðið þori að spila sóknarbolta gegn góðu liði.
„Þeir eru með góða leikmenn eins og Jovetic og við þurfum að loka á hann. Annars finnst mér við verða að þora að sækja. Við erum með gott lið, góða leikmenn og verðum að þora að halda í boltann og sýna gæðin okkar. Við viljum sýna íslensku þjóðinni að við erum góðir með boltann líka,“ sagði Ísak.
Seinni leikurinn í verkefninu fer fram í Izmir á vesturströnd Tyrklands. Tyrkir eru mjög ástríðufullir þegar fótbolti er annars vegar og á Skagamaðurinn ungi von á miklum látum.
„Ég hef spilað gegn Trabzonspor með FC Kaupmannahöfn og það er einhver sturlaðasta upplifun ferilsins.“
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.