Hákon missir af Þjóðadeild og Meistaradeild

Hákon Arnar Haraldsson og Kobbie Mainoo á Wembley í júní. …
Hákon Arnar Haraldsson og Kobbie Mainoo á Wembley í júní. Hákon hefur verið í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu að undanförnu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Hákon Arnar Haraldsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, verður frá keppni næstu þrjá mánuðina vegna meiðslanna sem hann varð fyrir á æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvellinum í gær.

Lille, félag hans í Frakklandi, skýrði frá þessu í dag og segir að hann sé með brotið bein í fæti og verði því frá keppni framundir jól.

Íslenska landsliðið lýkur riðlakeppni Þjóðadeildarinnar 19. nóvember og því nokkuð ljóst að Hákon muni missa af öllum sex leikjum íslenska liðsins.

Hákon hefur leikið þrjá fyrstu leiki Lille í frönsku 1. deildinni og spilaði með liðinu í umspili um sæti í Meistaradeildinni, þar sem liðið leikur í vetur. Ljóst er að hann missir af meirihluta leikja liðsins þar, væntanlega sex leikjum af átta, en ætti að vera kominn af stað á ný í tveimur síðustu umferðunum sem eru leiknar í lok janúar.

Lille mætir Sporting Lissabon í fyrsta leiknum í Meistaradeildinni 17. september og Real Madrid 2. október. Síðan leikur franska liðið gegn Atlético Madrid, Juventus, Bologna og Sturm Graz fram í desember.

Í janúar leikur Lille svo við Liverpool á Anfield og Feyenoord á heimavelli og þeim ætti Hákon að ná.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert