„Okkur ber að bera virðingu fyrir henni“

Jóhann Berg Guðmundsson og landsliðsþjálfarinn Åge Hareide á blaðamannafundi íslenska …
Jóhann Berg Guðmundsson og landsliðsþjálfarinn Åge Hareide á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það þarf allt að smella hjá okkur en við erum á réttri leið,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Ísland mætir Svartfjallalandi í fyrsta leik sínum í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildar UEFA á Laugarlsvelli á morgun klukkan 18:45 og verður leikurinn í beinni textalýsingu á mbl.is.

Jóhann Berg hefur verið lykilmaður í íslenska liðinu í áratug en hann fór með landsliðinu á tvö stórmót, EM í Frakklandi árið 2016 og HM í Rússlandi árið 2018, en hann var spurður út möguleika Íslands á að komast aftur á stórmót á fundinum í dag.

Verður alltaf upp og niður

„Við erum lítil þjóð og gengið verður alltaf upp og niður, þegar endurnýjun innan liðsins á sér stað,“ sagði Jóhann Berg.

„Leikmenn liðsins eru hægt og rólega að færa sig yfir í stærri félög og þeir eru farnir að taka meiri ábyrgð innan landsliðsins líka sem er mjög jákvætt. Eins og við horfum á þetta núna þá er nýtt tímabil að byrja hjá okkur.

Þjóðadeildin er klárlega ekki allra en þessi keppni hefur gefið okkur tvo leiki, þar sem við höfum átt möguleika á sæti á stórmóti, og okkur ber að bera virðingu fyrir henni. Vonandi geta yngri leikmenn liðsins tekið að sér stærra hlutverk í þessari keppni og leitt okkur á annað stórmót,“ bætti Jóhann Berg við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert