„Við þurfum að eiga okkar besta leik á móti þeim,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli í dag.
Ísland mætir Svartfjallalandi í fyrsta leik sínum í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildar UEFA á Laugardalsvelli á morgun klukkan 18:45 og verður leikurinn í beinni textalýsingu á mbl.is.
„Ég tel okkur eiga góða möguleika gegn þeim og við eigum góða möguleika gegn öllum á Laugardalsvelli. Þeir hafa á að skipa góðum leikmönnum sem eru mjög líkamlega sterkir. Þetta verður erfitt en við höfum sýnt það áður að við getum gefið hvaða liði sem er alvöru leik.
Stevan Jovetic er frábær leikmaður sem við þurfum að hafa góðar gætur á. Þessi leikur snýst fyrst og fremst um það að ná í úrslit og við ætlum okkur þrjú stig á móti þeim,“ sagði Hareide.