Ég er með betri mönnum í þessu liði

Andri Fannar Baldursson ræddi við mbl.is í Víkinni.
Andri Fannar Baldursson ræddi við mbl.is í Víkinni. Árni Sæberg

Andri Fannar Baldursson leikmaður U21-árs landsliðs Íslands og Elfsborg í Svíþjóð hefur átt erfiða síðustu tvo mánuði í Svíþjóð en hann er að láni hjá sænska félaginu frá Bologna á Ítalíu.

Andri leikur með íslenska 21-árs landsliðinu gegn Dönum á Víkingsvellinum í undankeppni EM klukkan 15 í dag.

Miðjumaðurinn var lykilmaður hjá Elfsborg á síðustu leiktíð og framan af þessu tímabili en undanfarna tvo mánuði hefur hann lítið fengið að spreyta sig og verið mikið á bekknum.

„Staðan hjá mér er öðruvísi. Ég átti ekki að vera áfram hjá þeim eftir sumarið en svo breyttist það og ég mætti svolítið seint til æfinga og það var eitthvað vesen í kringum það.

Það er leyst og ég er kominn af stað. Það er nýr þjálfari og nýjar áherslur. Ég kom meiddur inn í fyrstu æfingarnar með honum og svo hefur liðið verið að spila vel og vinna alla leiki,“ útskýrði Andri Fannar í samtali við mbl.is og hélt áfram:

Andri Fannar Baldursson hefur mikið verið á bekknum hjá Elfsborg …
Andri Fannar Baldursson hefur mikið verið á bekknum hjá Elfsborg að undanförnu. Ljósmynd/Elfsborg

„Nú er mitt verkefni að vinna mér inn sæti í liðinu. Svona er fótboltinn. Stundum ertu að byrja og stundum ekki. Ég veit það sjálfur að ég get byrjað alla leiki með þessu liði og ég hef sýnt það. 

Ég er með betri mönnum í þessu liði og ég verð að sýna það aftur og nýta mín tækifæri. Ég hef engar efasemdir um að ég sé ekki nógu góður. Ég á heima í þessu byrjunarliði og ég þarf að vinna í því að koma mér þangað og vera jákvæður og þolinmóður,“ sagði hann með sjálfstraustið í lagi.

Elfsborg tryggði sér sæti í deildarkeppni Evrópudeildarinnar þar sem liðið mætir AZ Alkmaar frá Hollandi, Roma frá Ítalíu, Galatasaray frá Tyrklandi, Braga frá Portúgal, Athletic Bilbao frá Spáni, Qarabag frá Aserbaídsjan, Nice frá Frakklandi og enska liðinu Tottenham.

„Það er geggjað að komast inn í þessa deild í Evrópudeildinni. Við fengum líka klikkaðan drátt á móti rosalegum liðum. Nú verður álagið meira og þá þarf maður að vera klár þegar kallið kemur. Maður vill sýna sig og sanna,“ sagði Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert