Fagnið til heiðurs Alfreð

Jón Dagur Þorsteinsson fagnar markinu í kvöld.
Jón Dagur Þorsteinsson fagnar markinu í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Eina sem vantaði var að skora þriðja markið og klára þetta alveg í lokin,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson annar markaskorara Íslands í sigrinum á Svartfjallalandi, 2:0, í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þeir fengu fá tækifæri til að skora. Auðvitað getum við spilað aðeins betur. Aðstæður buðu kannski ekki upp á einhvern svakalegan leik en við vorum þéttir og flottir í dag,“ bætti hann við.

Jón Dagur skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá Gylfa Þór Sigurðssyni, en hann hefur ekki raðað inn skallamörkum á ferlinum.

„Ég var virkilega ánægður með þetta mark. Þetta var smá óvænt en gaman,“ sagði Jón Dagur sem fagnaði markinu sínu með því að taka dans til heiðurs Alfreð Finnbogasyni sem lagði landsliðsskóna á hilluna á dögunum.

„Alfreð Finnbogason gerði þetta á móti Úkraínu og ég spilaði í treyjunni hans í fyrsta skipti í dag.“

Sigurinn í kvöld var sá fyrsti hjá Íslandi í Þjóðadeildinni, eftir þó nokkrar tilraunir.

„Við töluðum um það fyrir leikinn í dag að það væri kominn tími á sigur í þessari keppni og það hafðist. Við höfðum beðið lengi eftir sigri í Þjóðadeildinni,“ sagði hann.

Næsti leikur er gegn Tyrklandi ytra á mánudagskvöld. „Það verður bara gaman. Ég er búinn að heyra að það sé mikil stemning þar og það verður hörkuleikur,“ sagði Jón Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert