Glódís frétti af tilnefningunni á netinu

Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Tilfinningin er ótrúlega góð. Þetta er mikill heiður og gaman að fá að vera í svona sterkum hópi einstaklinga,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir sem er ein af 30 leikmönnum sem er tilnefnd til Gullboltans, einna virtustu einstaklingsverðlauna knattspyrnunnar.

Hún frétti af tilnefningunni eins og flestir aðrir, með því að sjá fréttir af tilnefningunum á netmiðlum á miðvikudag. Var Glódísi Perlu nefnilega ekki tilkynnt formlega um að hún væri ein af 30 leikmönnum sem kæmi til greina.

„Nei, ég vissi ekkert af þessu fyrr en þetta kom á netið í fyrradag,“ sagði Glódís Perla í samtali við mbl.is.

Spurð hvort hún vissi hvort það væru hefðbundin vinnubrögð sagði Glódís Perla hreinskilin: „Ég bara þekki ekki hvernig þetta virkar venjulega.“

Nánar er rætt við Glódísi Perlu í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert