Hringdi meira í pabba

Logi Tómasson fylgist með Andra Lucasi Guðjohnsen í leiknum í …
Logi Tómasson fylgist með Andra Lucasi Guðjohnsen í leiknum í kvöld. Árni Sæberg

„Ég fékk að vita það 2-3 dögum fyrir leik að ég myndi byrja,“ sagði Logi Tómasson sem lék sinn fyrsta keppnisleik fyrir íslenska landsliðið í fótbolta er það sigraði það svartfellska, 2:0, í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli.

Logi viðurkenndi að það hafi verið örlítið stress fyrstu mínúturnar, en hann lék allan leikinn í kvöld. 

„Smá. Maður var aðeins að hringja meira í pabba fyrir leik og þetta var öðruvísi leikur en í norsku deildinni. Það tók nokkrar mínútur að ná stressinu úr sér. Ég var alveg eins að búast við því að byrja. Ég var klár ef það myndi gerast,“ sagði hann.

Bakvörðurinn var ánægður með varnarleik íslenska liðsins í heild í kvöld. „Við vorum þéttir og unnum vel sem ein heild. Við byggjum á þessu og vonandi höldum við áfram að bæta okkur.“

Leikurinn í kvöld var stór fyrir Loga, þar sem vinir og vandamenn fylgdust vel með honum.

„Maður finnur að það er meiri pressa. Það eru allir vinir og fjölskylda að horfa. Maður vill standa sig extra vel fyrir land og þjóð. Þegar þetta byrjar er þetta svo eins og hver annar leikur,“ sagði Logi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert