Ítalir skelltu Frökkum

Giacomo Raspadori skoraði þriðja mark Ítalíu í kvöld.
Giacomo Raspadori skoraði þriðja mark Ítalíu í kvöld. AFP/Stephane de Sakutin

Ítalía gerði góða ferð til Parísar og lagði Frakkland að velli, 3:1, þegar liðin áttust við í fyrstu umferð 2. riðils A-deildar Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.

Ekki blés byrlega fyrir Ítali þegar Frakkar náðu forystunni áður en mínúta var liðin af leiknum. Þá skoraði Bradley Barcola.

Eftir hálftíma leik jafnaði Federico Dimarco metin fyrir Ítalíu og staðan jöfn í hálfleik, 1:1.

Davide Frattesi kom Ítalíu yfir snemma í síðari hálfleik áður en Giacomo Raspadori innsiglaði sigurinn með þriðja markinu rúmlega stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Belgía lagði Ísrael

Í hinum leik riðilsins vann Belgía einnig 3:1-sigur á Ísrael.

Kevin De Bruyne skoraði tvívegis fyrir Belgíu og Youri Tielemans skoraði eitt mark. Lois Openda klúðraði þá vítaspyrnu í liði Belga.

Belginn Timothy Castagne skoraði sjálfsmark, sem reyndist eina mark Ísraels.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert