Léttur og skemmtilegur en líka ákveðinn

Andri Fannar Baldursson er lykilmaður hjá íslenska liðinu.
Andri Fannar Baldursson er lykilmaður hjá íslenska liðinu. Eyþór Árnason

Ólafur Ingi Skúlason er á leiðinni í sitt fyrsta verkefni sem þjálfari U21-árs landsliðs karla í fótbolta en liðið mætir Danmörku og Wales á heimavelli. Fyrri leikurinn við Danmörku er klukkan 15 í dag og seinni leikurinn við Wales á þriðjudag. 

Andri Fannar Baldursson lykilmaður liðsins er spenntur fyrir því að vinna með Ólafi Inga, en þeir spila sömu stöðu.

„Hann er með mikla reynslu sem leikmaður og maður sér það að hann þekkir þetta inn og út. Hann var mjög góður miðjumaður og hans innkoma er góð fyrir mig. Hann kemur með mjög góða punkta. Hann er léttur og skemmtilegur en á sama tíma ákveðinn,“ sagði Andri við mbl.is.

Hann er brattur fyrir leikjum gegn tveimur efstu liðum I-riðils, þar sem mikið verður undir.

„Við eigum góða möguleika á að gera eitthvað, sérstaklega hérna á heimavelli. Þetta er okkar vígi og við ætlum ekki að gefa neitt eftir. Við viljum vinna báða leikina, en það verður erfitt verkefni. Við viljum sýna hvað í okkur býr. Ég hef mikla trú á hópnum okkar,“ sagði Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert