Minnkandi aðsókn eftir góða byrjun í vor

Áhorfendur á leik á Víkingsvellinum í sumar.
Áhorfendur á leik á Víkingsvellinum í sumar. mbl.is/Eyþór Árnason

Aðsókn á leiki í Bestu deild karla í fótbolta hefur aukist lítillega frá síðasta tímabili en hefur hins vegar dregist nokkuð saman þegar liðið hefur á tímabilið eftir mjög góða byrjun í vor.

Þetta kemur fram í nákvæmri úttekt í fréttabréfi Íslensks toppfótbolta sem kom út í dag.

Þegar sex umferðir voru búnar af deildinni í vor höfðu 40.767 áhorfendur mætt á leikina 36, samanborið við 34.127 á sama tíma á keppnistímabilinu 2023.

Fjölgunin á milli ára í þessum sex fyrstu umferðum var því tæplega 17 present.

Eftir það hefur dregið nokkuð úr aðsókninni en í heildartölunum yfir fyrstu 18 umferðir deildarinnar má þó sjá að enn er aðsóknin um einu prósenti meiri í heild sinni á þessu ári en á árinu 2023.

Sem dæmi mættu 17.879 áhorfendur á leiki 16.-18. umferða árið 2023 en í sömu umferðum á þessu ári voru áhorfendur alls 13.756.

Í grein í fréttabréfinu er velt vöngum yfir skýringum á minnkandi aðsókn seinni part sumars og þar eru veðurfarið og mikil fjölgun á brottförum Íslendinga til útlanda frá síðasta ári tíndar til sem líklegar ástæður.

Meðalaðsókn á leikina til þessa á tímabilinu er 884 áhorfendur á leik en meðalaðsókn allt tímabilið 2023 var 824 áhorfendur á leik.

Breiðablik var með bestu meðalaðsókn í fyrstu 18 umferðunum í ár, 1.250 áhorfendur að meðaltali á leik, en í fyrra voru Víkingar með bestu aðsóknina í heild sinni allt tímabilið, eða 1.164 áhorfendur að jafnaði á leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert