Ógnuðu okkur aldrei mikið

Hjörtur Hermannsson, lengst til hægri, í baráttunni í kvöld.
Hjörtur Hermannsson, lengst til hægri, í baráttunni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Hjörtur Hermannsson var skiljanlega kátur eftir sigur Íslands á Svartfjallalandi, 2:0, í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í kvöld.

Hjörtur stóð vaktina vel í vörninni og átti sinn þátt í að íslenska liðið hélt hreinu og vann sanngjarnan sigur.

„Mér líður frábærlega. Það er alltaf gaman að koma á Laugardalsvöll og sækja þrjú stig fyrir framan land og þjóð,“ sagði Hjörtur í samtali við mbl.is eftir leik.

„Það var smá kafli í seinni hálfleik þar sem leikurinn var fram og til baka. En þeir ógnuðu okkur aldrei neitt mjög mikið. Við vorum með stjórn á þessu sem heild. Við vorum að spila saman sem lið í vörn og sókn,“ sagði hann um leikinn.

Hann skipti á dögunum til Carrarese frá Pisa en bæði lið leika í B-deild Ítalíu. Carrarese er nýliði í næstefstu deild.

„Vonandi fæ ég helling af spilatíma, þess vegna var ég að söðla um. Það eru spennandi tímar fram undan og við sjáum hvað gerist í framhaldinu,“ sagði hann um félagaskiptin.

Næst á dagskrá er útileikur gegn Tyrklandi í Þjóðadeildinni á mánudag. „Það eru búnar að vera margar spennandi rimmur við Tyrki á síðustu árum og það er gaman að spila þar. Við stefnum á góð úrslit á móti þeim,“ sagði Hjörtur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert