Orri um föður sinn: „Gamli veit sitt!“

Orri Steinn Óskarsson í baráttunni í kvöld.
Orri Steinn Óskarsson í baráttunni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var frábær liðsframmistaða,“ sagði Orri Steinn Óskarsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í kvöld.

Orri Steinn og Jón Dagur Þorsteinsson skoruðu mörk íslenska liðsins en þau komu bæði eftir hornspyrnur í sitthvorum hálfleiknum.

„Við stjórnuðum leiknum í fyrri hálfleik. Þetta var smá bras í seinni hálfleik en sigurinn er það eina sem skiptir máli. Það er frábært að spila með bæði Gylfa og Jóhanni Berg. Þeir koma inn með mikla reynslu og þeir gefa báðir mikið af sér, innan sem utan vallar, sem er ekki sjálfgefið. Það er allaf gaman að skora og það var mjög mikilvægt fyrir okkur að byrja vel. Við förum fullir sjálfstrausts til Tyrklands,“ sagði Orri Steinn.

Forréttindi að spila fyrir Ísland

Orri Steinn er einungis tvítugur en hefur þrátt fyrir það skorað þrjú mörk í níu landsleikjum.

„Það eru fyrst og fremst forréttindi að spila fyrir íslenska landsliðið. Að spila á Laugardalsvelli er eitthvað sem mann er búið að dreyma um síðan maður var smástrákur. Ég tek því ekki sem sjálfsögðum hlut að spila fyrir landsliðið og þetta er mikill heiður. Ég er stoltur Íslendingur og að spila með vinum sínum gerir þetta ennþá skemmtilegra.“

Óskar Hrafn Þorvaldsson, faðir Orra, er þjálfari KR í dag en hann gefur syni sínum reglulega góð ráð.

„Við pabbi tölum saman í að minnsta kosti klukkutíma á dag, bæði um fótbolta og lífið. Það er alltaf gott að heyra í honum og fá ráðleggingar. Gamli veit sitt,“ bætti Orri við í léttum tón í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert