Ótrúlega hæfileikaríkur knattspyrnumaður

Ólafur Ingi Skúlason fer afar vel af stað með íslenska …
Ólafur Ingi Skúlason fer afar vel af stað með íslenska U21 árs landsliðið. Eyþór Árnason

„Þetta var frábær sigur,“ sagði Ólafur Ingi Skúlason þjálfari U21 árs landsliðs karla í fótbolta í samtali við mbl.is eftir sigurinn glæsilega á Dönum, 4:2, í undankeppni EM á Víkingsvelli í dag.

„Við spiluðum mjög vel á köflum. Við byrjuðum vel en svo duttum við aðeins niður og þeir tóku yfir. Við gáfum þeim fullmikinn tíma á boltanum og þeir stýrðu leiknum.

Eftir að við lendum undir náum við yfirhöndinni aftur, komumst yfir og fáum tækifæri til að skora enn fleiri mörk. Svo byrjun við frekar illa í seinni hálfleik, fáum á okkur mark en svo svöruðum við því vel og unnum verðskuldað,“ sagði hann um leikinn.

íslenska liðið fagnar marki í dag.
íslenska liðið fagnar marki í dag. Eyþór Árnason

Sóknarleikur Íslands var virkilega góður í leiknum og hefðu mörkin hæglega getað orðið mun fleiri.

„Við vorum búnir að skoða það að þegar við vinnum boltann á ákveðnum stöðum að þá yrðu þeir opnir. Við hefðum getað nýtt færin betur verið betri í lokasendingunum. Við lögum það fyrir leikinn á þriðjudaginn.“

Kristall Máni Ingason gerði þrennu í leiknum og varð í leiðinni markahæsti leikmaðurinn í sögu U21 árs landsliðs Íslands.

„Kristall er frábær leikmaður sem hefur tekið miklum framförum undanfarin ár, sérstaklega í varnarleiknum. Hann er ótrúlega hæfileikaríkur knattspyrnumaður, eins og þeir margir hjá okkur. Það er gott fyrir hann að skora þrennu, spilandi í Danmörku.“

Með sigrinum er Ísland með örlögin í eigin höndum og fer á lokamótið með sigrum í þremur síðustu leikjunum. Liðið mætir Wales á Víkingsvelli á þriðjudag.

„Við erum með þetta í okkar höndum og við þurfum að einbeita okkur að næsta leik. Við þurfum góð úrslit þar líka. Við tökum þetta leik fyrir leik og við gerum klárt fyrir þriðjudaginn núna,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert