Sjö tíma flugið verður auðveldara

Alfons, lengst til vinstri, fagnar seinna marki leiksins.
Alfons, lengst til vinstri, fagnar seinna marki leiksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst við vera með stjórn á þessu. Þeir fengu ekki mörg opin færi,“ sagði bakvörðurinn Alfons Sampsted í samtali við mbl.is eftir sigurinn á Svartfjallalandi, 2:0, í Þjóðadeildinni í kvöld.

„Við fengum færi til að skora meira á lokakaflanum. Willum slapp t.d. í gegn og við fengum fleiri færi til að klára þetta. Það hefði verið gaman að skora þriðja markið en þetta var samt aldrei hætta í stöðunni 2:0,“ sagði hann.

Sigurinn var sá fyrsti hjá íslenska liðinu í Þjóðadeildinni. „Við fórum í umspil síðast án þess að vinna leik og það verður spennandi að sjá hvað við gerum núna.“

Næst á dagskrá hjá Íslandi er ferðalag til Tyrklands og útileikur í Izmir þar í landi á mánudag.

„Það gerir mikið að fara með sigur í næsta verkefni. Sjö tíma flugið verður auðveldara og kvöldið í kvöld verður skemmtilegra. Það kemur aukaorka þegar þú vinnur leiki og við tökum þá orku með okkur til Tyrklands,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert