Þá er erfitt að spila á móti okkur

Hákon Rafn, lengst til hægri, fagnar sigrinum í leikslok.
Hákon Rafn, lengst til hægri, fagnar sigrinum í leikslok. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér leið mjög vel allan tímann,“ sagði Hákon Rafn Valdimarsson markvörður íslenska landsliðsins í fótbolta í samtali við mbl.is eftir sigurinn á Svartfjallalandi, 2:0, í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í kvöld.

Hákon hafði ekki mjög mikið að gera í markinu en gerði það sem hann þurfti mjög vel.

„Við byrjuðum á móti vindi og gerðum það vel og í seinni hálfleik var ekki mjög mikið að gera. Við vorum þéttir til baka og hreinsuðum nánast allt frá. Við vorum þéttir og þegar við erum þéttir er erfitt að spila á móti okkur.“

Hákon er varamarkvörður enska úrvalsdeildarliðsins Brentford, en fær að spreyta sig í bikarleikjum liðsins.

„Mér finnst ég vera að bæta mig fullt og það er gott að fá bikarleikina. Við viljum komast langt í bikarnum. Annars þarf ég að vera þolinmóður og taka tækifærið þegar það kemur.“

Næst á dagskrá hjá íslenska liðinu er útileikur við Tyrkland á mánudag. „Það er yfirleitt stemning í Tyrklandi og það verður gaman,“ sagði Hákon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert