Trúði varla að þetta væri að gerast

Alfons Sampsted og Willum Þór Willumsson í leik gegn Slóvakíu.
Alfons Sampsted og Willum Þór Willumsson í leik gegn Slóvakíu. Eggert Jóhannesson

Willum Þór Willumsson, leikmaður enska félagsins Birmingham City, fékk óvæntar gleðifréttir skömmu eftir að hann samdi við félagið í sumar. Æskuvinur hans Alfons Sampsted samdi einnig við Birmingham nokkrum dögum síðar.

Þeir ólust upp saman í Kópavogi og fóru upp alla yngri flokka saman með Breiðabliki. Þeir eru því æskuvinir og nú liðsfélagar.

„Það var óvænt og skemmtilegt. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er með íslenskan liðsfélaga erlendis. Við höfum þekkst síðan við vorum 4-5 ára og maður trúði varla að þetta væri að gerast,“ sagði Willum glaður við mbl.is.

Fram undan hjá þeim félögum eru landsleikir við Svartfjallaland á heimavelli og Tyrkland á útivelli í Þjóðadeildinni. Er um fyrstu leiki Þjóðadeildarinnar í ár að ræða en leikurinn við Svartfjallaland fer fram á Laugardalsvellinum í kvöld og hefst klukkan 18.45.

„Mér líst vel á þessa leiki. Það er alltaf gaman að spila á Íslandi og það myndi gefa okkur mikið að byrja sterkt. Við fáum flottan leik gegn Svartfjallalandi til að fara vel af stað. Ég held við eigum góða möguleika í hörkuleik. Ef við spilum okkar fótbolta getum við sýnt að við erum betra lið.

Ég hef ekki spilað í Tyrklandi áður en það verður spennandi upplifun. Ég held við höfum fína möguleika til að gera góða hluti þar. Leikurinn verður bara skemmtilegri ef það eru meiri læti og meiri pressa,“ sagði Willum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert