„Við mættum mjög góðu liði en mér fannst við standa okkur virkilega vel og á öðrum degi hefði þetta getað farið öðruvísi,“ sagði Blikinn Agla María Albertsdóttir eftir 0:2 tap fyrir Sporting Lissabon þegar liðin börðust í Kópavogi í dag um að halda áfram í undankeppni Meistaradeildar kvenna í fótbolta.
Vissulega hefði þessi leikur getað þróast á annan veg á öðrum degi því á síðustu mínútu fyrri hálfleiks braut markmaður Sporting á Samönthu Smith, sem var að komast í opið færi – margir vildu sjá rauða spjaldið og jafnvel víti en dómari leiksins gaf einungis gula spjaldið.
Agla María var sátt við sitt lið og vill taka margt gott með sér í íslensku deildina, þar sem Breiðablik berst við Val í efri hluta efstu deildar. „Við vissum alveg hvað við vorum að fara út í því Nik þjálfari okkar var búinn að greina þær í þaula og mér fannst við sýna það í leiknum, áttum mjög góðan leik. Við eigum nú fjóra leiki eftir í deildinni og það eru bara fjórir úrslitaleikir svo við þurfum að fókusera strax á það en það sem við getum tekið út úr þessum leik er að frammistaðan var mjög góð hjá okkur við tökum það með í næsta leik, sem er gegn Þrótti,“ bætti Agla María við en hún er að komast í gang eftir næstum þrjá mánuði vegna meiðsla.
„Ég er orðin nokkuð góð og er að vinna mig inní þetta. Mér finnst alveg geggjað að vera byrjuð aftur enda hef ég stefnt það síðan ég meiddist fyrir nokkrum mánuðum.“
Kristín Dís Árnadóttir, sem kom til liðs við Breiðablik frá Bröndby fyrir tæpum mánuði, var afar sátt við sitt lið. „Ég held að við séum nokkuð sáttar við okkar frammistöðu. Við byrjuðum samt ekki nógu vel og lendum strax undir, sem er erfitt á móti svona liði. Mér fannst við hins vegar taka vel við okkur eftir fyrra markið þeirra og fannst við frábærar á seinni hálfleik svo leikurinn gæti hafa farið öðruvísi á einhverjum öðrum degi,“ sagði Kristín Dís eftir leikinn og vill taka margt með í næstu leiki Blikakvenna.
„Við fengum lítinn tíma á milli leikja en vorum samt búnar að rýna rækilega í leik Sporting svo það kom okkur ekkert á óvart. Ég er ógeðslega stolt að liðinu, fannst við ótrúlega flottar í þessum leik og finnst við geta gengið sáttar frá leiknum. Ef við spilum svona í næstum leikjum í deildinni hér heima, tökum einn leik fyrir í einu með markmiðið að vinna deildina þá er næsta skref að taka næsta leik og enda á toppnum.“