Grótta mátti gera sér þriðja sætið að góðu í 1. deild kvenna í knattspyrnu eftir að hafa unnið ÍA 2:1 á Akranesi í lokaumferðinni í dag.
Á sama tíma vann Fram stórsigur á FHL og tryggði sér þannig annað sætið og sæti í Bestu deildinni á næsta tímabili. Fram og Grótta unnu sér inn 34 stig en Fram var með töluvert betri markatölu.
Þetta er annað árið í röð sem Grótta missir naumlega af sæti í Bestu deildinni í lokaumferð 1. deildarinnar.
Hin 16 ára gamla Arnfríður Auður Arnarsdóttir skoraði bæði mörk Gróttu í dag. Erla Karitas Jóhannesdóttir skoraði mark ÍA.
Selfoss, sem var þegar fallinn niður í 2. deild, gerði jafntefli við Grindavík, 1:1, á Selfossi.
Ása Björg Einarsdóttir kom Grindavík yfir áður en Eva Lind Elíasdóttir jafnaði metin fyrir Selfoss undir lokin.
ÍR, sem einnig var þegar fallið niður í 2. deild, vann Aftureldingu 1:0 í Breiðholti.
Þá hafði HK auðveldlega betur gegn ÍBV, 5:0, í Kórnum.
Fréttin verður uppfærð með markaskorurum úr leikjum ÍR - Aftureldingar og HK - ÍBV þegar þeir berast.