Hefðum getað drepið leikinn en tókst ekki

Andrea Rut Bjarnadóttir með tvo varnarmenn Sporting á eftir sér.
Andrea Rut Bjarnadóttir með tvo varnarmenn Sporting á eftir sér. mbl.is

„Við lékum eins og við ætluðum okkar, spilum nákvæmlega svona í Portúgal nema hvað við lögðum samt meiri áherslu á að halda boltanum því Breiðablik er sterkt lið,“ sagði Mariana Cabral þjálfari Sporting Lissabon eftir 2:0 sigur á Breiðablik í Kópavoginum í dag, þegar leikið var um sæti í undankeppni í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu.

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur gegn vel skipulögðu og líkamlega sterku liði sem berst hart og veit hvað það er að gera.  Við erum hinsvegar teknískara lið, viljum halda boltanum meira og spila vel þegar við leitum að plássi.  Þetta var því góður sigur en við fengum fleiri færi til að skora, hefðum getað skorað meira fyrr í leiknum til að drepa leikinn en það gerðist ekki svo leikurinn var lengi alveg opin því Breiðablik hefði getað skorað í seinni hálfleik svo við erum sátt við tvö-núll sigur,“ bætti þjálfarinn við.

Við réðum leiknum að mestu

Brittany Raphino í fremstu víglínu Sporting lét Blika hafa mikið fyrir sér, snögg og leikin, og sagði sitt lið hafa spilað eins og þær vildu.  „Við spiluðum eins og við ætluðum að gera, höfðum boltann og réðum leiknum að mestu,“ sagði Brittany eftir leikinn.  „Við höfðum séð nokkra leiki hjá Breiðablik en einbeittum okkur að hvernig við ætluðum að spila og vitum hvað við getum.  Þetta var eins og við spilum venjulega, erum tæknilegar, höfum stjórn á leikjum, höldum hröðum leik og látum boltann ganga með góðu sjálfstrausti.  Vitum ekki hvaða liði við mætum næst en munum líka spila þar eins og við ætlum okkur og það dugar vonandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert