Heimaleikir Víkings í Færeyjum? 85% líkur segir Haraldur

Víkingar eiga sex leiki fyrir höndum í Sambandsdeild UEFA og …
Víkingar eiga sex leiki fyrir höndum í Sambandsdeild UEFA og gætu spilað þá alla erlendis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víkings í Reykjavík, segir að 85 prósent líkur séu á að Víkingar spili heimaleikina þrjá í Sambandsdeild karla í Færeyjum.

Þetta segir hann í ítarlegu viðtali við Fótbolta.net þar sem farið er yfir stöðuna hjá Víkingum sem eiga fyrir höndum heimaleiki gegn Cercle Brugge frá Belgíu 24. október, Borac Banja Luka frá Bosníu 7. nóvember og Djurgården frá Svíþjóð 12. desember.

Knattspyrnusamband Evrópu gerir þá kröfu að allir leikirnir fari fram á sama vellinum og þar með er Laugardalsvöllur út úr myndinni en UEFA treystir því ekki að hann verði leikhæfur í desember.

Kópavogsvöllur kemur til greina, eini völlurinn utan Laugardalsvallar sem getur uppfyllt skilyrði UEFA, og Breiðablik hefur heimilað Víkingum að spila þar, en þá þarf að leggja út í talsverðan kostnað við að gera völlinn löglegan og að sögn Haraldar hafa Víkingar fengið neikvæð viðbrögð við því að út í hann verði farið.

Víkingar hafa að sögn Haraldar þegar fengið staðfest frá Færeyingum að leikirnir þrír geti farið fram þar og ákvörðun verði tekin endanlega á mánudagskvöld. Sjá nánar á Fótbolti.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert