Forbes með þrennu er Keflavík féll

Caroline Van Slambrouck og Gyða Kristín Gunnarsdóttir í leik liðanna …
Caroline Van Slambrouck og Gyða Kristín Gunnarsdóttir í leik liðanna á síðasta tímabili. mbl.is/Arnþór Birkisson

Keflavík og Stjarnan skildu jöfn, 4:4, í ótrúlegum leik í 20. umferð í neðri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Keflavík í dag. Þar með er ljóst að Keflavík er fallin niður í 1. deild ásamt Fylki.

Melanie Forbes skoraði þrennu fyrir Keflavík sem er sem fyrr á botni deildarinnar, nú með 11 stig, og Stjarnan er áfram í sjöunda sæti, nú með 22 stig.

Leikmenn Keflavíkur mættu gífurlega ákveðnir til leiks og pressuðu Stjörnukonur stíft hátt á vellinum.

Eftir að hafa unnið boltann nokkrum sinnum nálægt vítateig Stjörnunnar og hótað marki á upphafsmínútunum kom fyrsta markið á tíundu mínútu, og fylgdi þeirri uppskrift.

Boltinn vannst ofarlega á vellinum, Marín Rún Guðmundsdóttir átti svo góða sendingu hægra megin við vítateiginn á Forbes sem tók vel við boltanum vinstra megin í teignum og renndi honum niður í fjærhornið með hnitmiðuðu vinstri fótar skoti.

Áfram var Keflavík með öll völd og tvöfaldaði forystuna á 21. mínútu. Tilraunir Stjörnunnar til þess að spila úr öftustu línu báru þá ekki árangur frekar en fyrr í leiknum.

Það endaði með því að Arna Dís Arnþórsdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, reyndi að senda til hliðar úr eigin markteig en beint í fætur Forbes sem þakkaði fyrir sig og skoraði auðveldasta mark sitt á ferlinum nánast á marklínu.

Þrennan fullkomnuð

Enn gat Forbes blómum á sig bætt því hún fullkomnaði þrennuna eftir rúmlega hálftíma leik.

Slæm sending Huldu Hrundar Arnarsdóttur rataði þá beint í fætur Simonu Meijer sem lék með boltann fram völlinn, lagði hann til hliðar á Forbes sem tók við boltanum og lagði hann niður í fjærhornið með hnitmiðuðu vinstri fótar skoti.

Undir lok fyrri hálfleiks minnkaði Stjarnan svo muninn með sinni fyrstu marktilraun í leiknum. Gyða Kristín Gunnarsdóttir tók þá aukaspyrnu af hægri kantinum, fann Eyrúnu Emblu Hjartardóttur á fjærstönginni, hún vann skallaboltann og kom hin 15 ára gamla Fanney Lísa Jóhannesdóttir á ferðinni og skoraði með föstum skalla úr miðjum vítateignum sem fór niður í hægra hornið.

Staðan í hálfleik var því 3:1, Keflavík í vil, eftir geysilega yfirburði heimakvenna með vindinn í bakið. Stjarnan sá ekki til sólar í fyrri hálfleiknum, réði ekkert við hápressu Keflavíkur og því síður við hvassan vindinn í fangið.

Hundrað prósent nýting Stjörnunnar

Snemma í síðari hálfleik komst Marín Rún nálægt því að skora fjórða mark Keflavíkur. Hún fékk þá boltann frá Saorlu Miller fyrir miðjum vítateignum, tók viðstöðulaust skot sem virtist hættulítið en fór upp í vindinn og hafnaði svo í þverslánni áður en Arna Dís hreinsaði frá.

Stuttu síðar, á 53. mínútu, komst Forbes nálægt því að skora fjórða mark sitt í leiknum. Hún skaut þá rétt framhjá af vítateigslínunni eftir glæsilegan sprett af vinstri kantinum inn að miðju.

Eftir klukkutíma leik skoraði Stjarnan annað mark sitt í leiknum í annarri marktilrauninni.

Fanney Lísa átti þá glæsilega fyrirgjöf af hægri kantinum yfir á Huldu Hrund Arnarsdóttur sem lúrði á fjærstönginni og skoraði með viðstöðulaus vinstri fótar skoti á lofti.

Stjarnan hélt uppteknum hætti með fullkomna nýtingu sína og jafnaði metin í 3:3 á 66. mínútu með þriðju marktilraun liðsins í leiknum.

Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir átti þá glæsilegan sprett af vinstri kantinum, lék með boltann inn í vítateig, náði góðu skoti í fjærhornið sem fór í stöngina, boltinn rúllaði svo eftir marklínunni og fór loks yfir hana.

Enn tími fyrir tvö mörk til viðbótar

Fimm mínútum síðar náði Keflavík hins vegar forystunni á ný. Miller kom þá boltanum á Forbes sem lagði hann á Marín Rún sem tók viðstöðulaust skot úr vítateignum af stuttu færi, beint á Erin McLeod í marki Stjörnunnar sem missti nærri því boltann í markið, náði að blaka honum út en beint á Marín Rún sem skoraði í annarri tilraun.

Mörkin hættu ekki að koma því Úlfa Dís jafnaði metin í 4:4 á 82. mínútu en tilraununum hafði þá fjölgað aðeins hjá Stjörnunni og hundrað prósent nýtingin því úr sögunni.

Fanney Lísa fór þá vel með boltann hægra megin, átti hnitmiðaða sendingu á Úlfu Dís sem tók við boltanum rétt innan vítateigs vinstra megin og skrúfaði hann svo glæsilega upp í fjærhornið.

Tveimur mínútum fyrir leikslok var Úlfa Dís nálægt því að fullkomna þrennuna og tryggja Stjörnunni sigurinn en skot hennar úr D-boganum fór rétt yfir markið.

Átta marka jafntefli reyndist því niðurstaðan.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Tindastóll 3:0 Fylkir opna
90. mín. Leik lokið Þá er það staðfest, bæði Fylkir og Keflavík eru fallin úr Bestu deild kvenna eftir 3:0 sigur Tindastóls í dag.
Breiðablik 0:0 Sporting opna
Engir atburðir skráðir enn

Leiklýsing

Keflavík 4:4 Stjarnan opna loka
90. mín. Stjarnan fær hornspyrnu Varis kýlir boltann aftur fyrir, önnur hornspyrna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert